Science

Science er tímarit um vísindi sem bandarísku vísindasamtökin American Association for the Advancement of Science [hér eftir AAAS] gefa út. Það kom fyrst út árið 1880 og er talið vera eitt af virtustu tímaritum sinnar tegundar í heiminum. Tímaritið er ritrýnt. Það kemur út vikulega í um 130.000 eintaka upplagi. Tímaritið er aðgengilegt á mörgum bókasöfnum víða um heim og í netáskrift. Talið er að lesendur blaðsins séu um ein milljón.[1] Höfuðstöðvar Science eru í Washington, D.C. í Bandaríkjunum en tímaritið hefur einnig skrifstofu í Cambridge á Englandi.

Tímaritið leggur áherslu á að birta mikilvægar frumlegar rannsóknir og gagnrýni á öllum sviðum raunvísinda en þar að auki birtir tímaritið fréttir sem tengjast vísindum, álitsgreinar um vísindastefnu og annað efni sem tengist tækni og vísindum. Ólíkt flestum tímaritum um vísindi, sem eru sérhæfð á einhverju tiltekni sviði vísindanna, en líkt og meginkeppinautur tímaritsins, Nature, fjallar Science um allar greinar raunvísindanna. Samt sem áður er áhersla lögð á líffræði og önnur lífvísindi vegna tilurðar líftækniiðnaðarins og erfðafræðinnar undanfarna áratugi.

Enda þótt AAAS gefi tímaritið út er aðild að samtökunum ekki skilyrði fyrir útgáfu í Science. Tímaritið birtir greinar eftir vísindamenn frá öllum heimshornum. Mikil samkeppni er um að fá birta grein í Science, innan við 10% innsendra greina eru birtar en allar rannsóknargreinar eru ritrýndar fyrir birtingu.

Blaðamaðurinn John Michaels stofnaði Science í New York borg árið 1880. Hann naut til þess fjárhagsstuðnings frá Thomasi Edison og síðar Alexander Graham Bell. Útgáfan átti í fyrstu erfitt uppdráttar og í mars 1882 var útgáfunni hætt. Samuel Hubbard Scudder endurreistu útgáfu tímaritsins ári síðar. Árið 1894 átti tímaritið enn á ný í fjárhagserfiðleikum og var selt sálfræðingnum James McKeen Cattell fyrir 500 dollara. Samkvæmt samkomulagi Cattells og ritara AAAS, Leland O. Howard, var Science tímarit AAAS árið 1900.[2]

Á fyrri hluta 20. aldar birtust ýmsar mikilvægar greinar í Science, þ.á m. greinar eftir Thomas Hunt Morgan, Albert Einstein og Edwin Hubble.[3] Að Cattell látnum árið 1944 eignaðist AAAS tímaritið.[4]

Philip Hauge Abelson var ritstjóri tímaritsins frá 1962 til 1984. Í ritstjórnartíð hans var ritrýningarferlið endurbætt.[5] Á þessum tíma birtust m.a. greinar um Apollo-áætlunina og nokkrar af fyrstu greinunum um alnæmi.[6]

Tilvísanir

  1. AAAS, „What is AAAS?
  2. AAAS, „150 Years of Advancing Science: A History of AAAS AAAS and Science: 1900–1940 Geymt 27 september 2011 í Wayback Machine“, 2004
  3. „„AAAS and Science: 1900-1940". Afrit af upprunalegu geymt þann 29. febrúar 2012. Sótt 9. júlí 2007.
  4. „„AAAS - History and Archives". Afrit af upprunalegu geymt þann 29. febrúar 2012. Sótt 9. júlí 2007.
  5. „„AAAS and the Maturing of American Science: 1941-1970". Afrit af upprunalegu geymt þann 29. febrúar 2012. Sótt 9. júlí 2007.
  6. „„Change and Continuity: 1971 to the Present". Afrit af upprunalegu geymt þann 29. febrúar 2012. Sótt 9. júlí 2007.

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!