Reykjavíkurganga eða Reykjavíkurgangan 1967 gegn herstöðvum, fasisma og erlendri ásælni var mótmælaganga gegn hersetunni sem haldin var sunnudaginn 4. júní árið 1967. Aðgerðirnar voru í nafni Framkvæmdanefndar Reykjavíkurgöngunnar, en aðstandendur voru flestir meðlimir í Samtökum hernámsandstæðinga.
Aðdragandi og skipulag
Samtök hernámsandstæðinga voru afar öflug á fyrri hluta sjötta áratugarins og stóðu fyrir fjórum Keflavíkurgöngum á árunum 1960 til 1965. Eftir það tók nokkuð að dofna yfir starfseminni og var ekki efnt til neinnar stórrar göngu sumarið 1966. Útlit var fyrir að sagan endurtæki sig árið eftir, m.a. vegna Alþingiskosninganna 1967, en samtökin höfðu sig einatt minna í frammi á kosningaárum.
Kosningarnar fóru fram laugardaginn 11. júní og ákvað hópur fólks úr Æskulýðsfylkingunni og félögum úr Samtökum hernámsandstæðinga að efna til göngu í höfuðborginni viku fyrir þær, til að koma hermálinu betur á dagskrá. Á annað hundrað manns skráðu sig sem stuðningsfólk göngunnar og voru nöfn þeirra birt í fréttatilkynningum til dagblaða. Í yfirskrift og auglýsingum fyrir gönguna var meiri áhersla lögð á alþjóðlega baráttu en tíðkast hafði í Keflavíkurgöngnum. Þannig var tekið fram að gangan beindist gegn árásar- og yfirgangsstefnu Bandaríkjanna jafnt á Íslandi sem í Víetnam og stuðningi þeirra við fasistaöfl á Grikklandi og í Portúgal.
Gangan hófst við mót Suðurlandsbrautar og Langholtsvegs með stuttu ávarpi Þórodds Guðmundssonar frá Sandi og var gengið um Laugararneshverfi, uns staðnæmst var við Menntaskólann við Hamrahlíð. Þar var efnt til fundar um málefni Grikklands og hélt Sigurður A. Magnússon erindi. Þessu næst var gengið um Norðurmýri, Þingholt og Vesturbæ, áður en slegið var upp fundi við Skothúsveg þar sem Vilborg Dagbjartsdóttir hélt ræðu um Víetnam. Efst á Skólavörðuholti var svo haldinn útifundur þar sem Jóhannes úr Kötlum var ræðumaður. Í fundarlok var samþykkt ályktun þar sem landsmenn voru hvattir til að kjósa einungis þá frambjóðendur sem hefðu hreinan skjöld í herstöðvarmálinu og væri treystandi til að berjast fyrir sjálfstæðri utanríkisstefnu.