Rauðsmári hefur sterka stólparót en stönglarnir verða 40 cm á hæð. Þeir eru hærðir og ýmist uppréttir eða jarðlægir. Blöðin eru hærð og nær heilrend, oft með ljósan blett í miðju blaði. Blöðin eru þrífingruð með öfugegglaga eða sporbaugótt smáblöð. Smáblöð þessi eru 2 til 3,5 sentímetrar á lengd. Við blaðaxlir eru axlablöð sem mynda ljósgrænt slíður með dökkum æðum og löngum broddi í endann.
Blómgun rauðsmára verður í júlí til ágúst en það er mjög sjaldgæft að hann myndi fræ á Íslandi vegna þess að til að það gerist þurfa stór skordýr, eins og humlur, að sjá um frjóvgunina. Blómin eru við allar aðstæður víxlfrjóvga.[1] Blómin eru einsamhverf og um 2,5 til 3 cm í þvermál. Krónan er 12 til 16 mm löng en bikarinn eilítið styttri, um 7 til 8 mm langur. Hann er aðhærður og klofinn niður að miðju í 5 örsmáa hærða flipa.
Nýting
Rauðsmári telst til íslensku flórunnar, þó að hann sé ekki algengur nema sem slæðingur við bæi og á röskuðum svæðum. Hann hefur verið notaður til túnræktar að einhverju marki, en endist illa (oft bara um 2 til 4 ár) vegna þess hve hann er illa búinn undir beit og traðk.[1] Hans kjörlendi er graslendi og tún, þó hann láti oft undan í samkeppni í grónu og frjósömu landi. Hann hentar einkar vel til gróffóðurverkunar, sér í lagi í blöndu við vallarfoxgras. Vallarfoxgras hefur reynst góður svarðarnautur rauðsmárans vegna þess að það er ekki eins frekt og margar aðrar grastegundir sem notaðar er í tún. Í íslenskum tilraunum sem gerðar voru 1994 var sýnt fram á það að rauðsmári hefur hærra hlutfall lignínsellulósa, meira af hrápróteini og steinefnum en félagi Vallarfoxgras.[2]
Eitthvað hefur borið á svokölluðu smáraroti, sem er sveppasjúkdómur af völdum Sclerotina trifolium en hann er hættumestur á mildum, votum haustum og undir snjó. Þá er rauðsmári viðkvæmur við rótarsliti vegna frostlyftingar og hárri grunnvatnsstöðu. Hann safnar sterkju í forðarót sína sem er að vissu leyti því sterkjunni er erfiðara að breyta í orku fyrir grasbíta heldur en frúktósi eða súkrósi sem er aðal forðanæring grasa.[1]