Róhingjar rekja sögu þjóðar sinnar aftur um aldir í Mjanmar en stjórnvöld viðurkenna í dag þá ekki sem eitt þjóðarbrota í landinu og segja þá hafa komið frá Bangladess. Á síðustu áratugum hefur mjanmarski herinn staðið í átökum við þjóðina, þ.e. árin 1978, 1991–1992, 2012, 2015 og 2016–2017. Róhingjar hafa löngum eldað grátt silfur við Rakhína, þjóðarbrot sem er í meirihluta í Rakhine-fylki. Til að mynda skiptist í síðari heimsstyrjöld stuðningur þjóðarbrotanna þannig að Róhingjar studdu Breta en Rakhínar Japani.
Róhingjar búa við skert ferðafrelsi, rétt til menntunar og í stjórnmálaþátttöku í nútíma Mjanmar. Árin 2016-2017 bjuggu um ein milljón Róhingjar í Mjanmar en í lok árs 2017 höfðu yfir 600 þúsund flúið yfir til Bangladess vegna átaka.