Pablo Dorado fæddist í Montevideo og hóf knattspyrnuferil sinn með C.A. Bella Vista. Hann gekk til liðs við argentínska liðið River Plate eftir HM 1930 og lék þar um nokkurra missera skeið áður en hann lagði skóna á hilluna.
Kunnastur er Dorado fyrir þátt sinn í heimsmeistaratitli Úrúgvæ á heimavelli árið 1930. Hann var ónotaður varamaður í fyrsta leiknum gegn Perú en tók þátt í hinum þremur. Hann skoraði fyrsta markið í 4:0 sigri á Rúmeníu í riðlakeppninni og kom Úrúgvæ í 1:0 í úrslitaleiknum sjálfum gegn Argentínu.