Nasjonal Samling

Þjóðleg eining
Nasjonal Samling
Tákn Nasjonal Samlings frá 1933 til 1945 var gulur Sólkross á rauðum botni
Tákn Nasjonal Samlings frá 1933 til 1945 var gulur Sólkross á rauðum botni
Leiðtogi Vidkun Quisling
Aðalritari Rolf Jørgen Fuglesang
Stofnár 13. maí 1933
Lagt niður 8. maí 1945
Höfuðstöðvar Ósló, Noregi
Félagatal
  • 8,000 (1936)[1]
  • 2,500 (1939)
  • 44,000 (1943)
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Norsk þjóðernishyggja, fasismi, fasísk samráðsskipan
Einkennislitur Rauður og gulur

Nasjonal Samling – NS (Þjóðleg eining, hefur einnig verið þýtt sem Þjóðfylkingin) var norskur stjórnmálaflokkur, stofnaður 1933 og lagður niður eftir ósigur þýska hersins í Noregi 1945. Foringi flokksins og helsti hugmyndafræðingur var Vidkun Quisling. Hugmyndafræði NS einkenndist af kenningum fasismans og seinna einnig nazismans, þar sem þjóðernishyggja og dásemd á yfirburðum „norræna kynþáttarins“ var þungamiðja auk andstöðu gegn lýðræði og þingræði. Flokkurinn var byggður í samræmi við skipulag annarra fasistaflokka með „leiðtogaskipulagi“, með Quisling sem öllu ráðandi foringja – fürer. Fyrir utan kvenna og ungliðadeildir hafði flokkurinn að þýskri og ítalskri fyrirmynd einnig vopnaða sveit sem nefnd var Hirden – Hirðin.

Nasjonal Samling bauð fram í þingkosningunum 1933 og 1936 en hafði ekki það fylgi sem flokksmenn höfðu vonað, í kosningunum 1933 fékk flokkurinn 27 850 atkvæði eða 2.23 % og 1936 26 577 atkvæði eða 1.83 % og komu engum manni á þing.[2] Þessi úrslit ollu miklum deilum innan flokksins og endaði með klofningi þar sem sá hluti sem var borgarlega hægrisinnaður sagði skilið við Quisling. Á næstu árum var flokkurinn smár í sniðum og einangraður og snérist að mestu í kringum Quisling sjálfan.

Heinrich Himmler kom til Noregs 1941. Á myndinni má sjá, talið frá vinstri til hægri Quisling, Himmler, Josef Terboven, sá sem í raun stjórnaði Noregi á hernámsárunum, og herforinginn Nikolaus von Falkenhorst, æðsti yfirmaður þýska hersins í Noregi

Hugmyndafræðilega færðist NS á þessum árum allt nær þýska nazistaflokknum og á fundi Quislings með Hitler 14. desember 1939 var NS lofað aðstoð við uppbyggingu flokksins. Eftir innrás þýska hersins í Noreg 9. apríl 1940 greip Quisling tækifærið og lýsti því yfir að norsku ríkisstjórninni hefði verið steypt af stóli og að hann tæki sjálfur við völdum. Viku seinna tóku Þjóðverjar völdin af Quisling og við tók stjórn sem skipuð var af hæstarétti Noregs. Á næstu mánuðum fóru fram viðræður um mögulega samstarfsstjórn en þær viðræður runnu út í sandinn. Josef Terboven, sem var ríkisstjóri Þjóðverja í Noregi, lýsti því yfir 25. september 1940 að stjórn hæstaréttar væri þar með uppleyst og að útlagastjórnin, sem sat í London, og norski konungurinn væru sett af. Í hinni nýju framkvæmdastjórn sem Þjóðverjar settu á laggirnar voru flesti flokksmenn í NS. Samtímis voru allir flokkar aðrir en NS bannaðir. Hinn 1. febrúar 1942 var Quisling síðan gerður að forsætisráðherra sem átti að stjórna Noregi í umboði Þýskalands þar til að stríðinu væri lokið.

Fljótlega fór Nasjonal Samling að vaxa, frá því að hafa verið hópur nokkur hundruð manna í apríl 1940 hafði hann vaxið í september sama ár í 22 000 félaga og í nóvember 1943 43 400.

Norska útlagastjórnin í London gerði það ólöglegt að vera flokksfélagi í Nasjonal Samling. Flokksfélagar voru þess vegna allir kærðir fyrir landráð og stríðsglæpi. Handtökur hófust þegar hinn 8. maí 1945 þegar þýski herinn gafst upp, samanlagt voru 92 000 handteknir og um 55 000 dæmdir, 45 voru dæmdir til dauða, um 17 000 í fangelsi og hinir misháar sektir.[3]

Heimildir

  • Brevig, Hans Olaf & Ivo de Figueiredo: Den norske fascismen : Nasjonal samling 1933-1940, 2002, ISBN 8253024347
  • Dahl, Hans Fredrik m.fl.: Den norske nasjonalsosialismen : Nasjonal Samling 1933-1945 i tekst og bilder, [3. utg.], 1995, ISBN 9788253032467

Neðanmálsgreinar

  1. NS-medlemmene: Hvem var de? Norgeshistorie
  2. Norges offisielle statistikk, IX. 26 og IX. 107, Stortingsvalget 1933 og 1936
  3. „norgeslexi.no: Rettsoppgjøret“. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. febrúar 2003. Sótt 15. apríl 2010.

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!