Mark Rutte

Mark Rutte
Rutte árið 2023.
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins
Núverandi
Tók við embætti
1. október 2024
ForveriJens Stoltenberg
Forsætisráðherra Hollands
Í embætti
14. október 2010 – 2. júlí 2024
ÞjóðhöfðingiBeatrix
Vilhjálmur Alexander
ForveriJan Peter Balkenende
EftirmaðurDick Schoof
Persónulegar upplýsingar
Fæddur14. febrúar 1967 (1967-02-14) (57 ára)
Haag, Hollandi
ÞjóðerniHollenskur
StjórnmálaflokkurFrelsis- og lýðræðisflokkurinn (VVD)
HáskóliHáskólinn í Leiden
Undirskrift

Mark Rutte (f. 14. febrúar 1967) er hollenskur stjórnmálamaður sem er núverandi framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, en hann tók við af Jens Stoltenberg í október 2024. Rutte var jafnframt forsætisráðherra Hollands frá 2010 til 2024 og formaður Frelsis- og lýðræðisflokksins (VVD) frá árinu 2006 til ársins 2023.

Rutte er þaulsetnasti forsætisráðherra í sögu Hollands. Hann hefur stundum verið kallaður „Teflon-Mark“ í hollenskum stjórnmálum þar sem hann hefur staðið af sér mörg hneykslismál og ósigra í kosningum.[1]

Æviágrip

Rutte, sem þá átti að baki feril í viðskiptageiranum, var skipaður samfélags- og atvinnumálaráðherra Hollands árið 2002 í ríkisstjórn Jans Peter Balkenende eftir að Frelsis- og lýðræðisflokkurinn gekk í stjórnarsamstarf með Kristilegum demókrötum. Rutte var síðan kjörinn á neðri deild hollenska þingsins árið 2003. Næsta ár varð hann menningar-, mennta- og vísindamálaráðherra. Eftir að Frelsis- og lýðræðisflokkurinn hlaut slæma útreið í héraðskosningum árið 2006 sagði flokksformaðurinn Jozias van Aartsen af sér. Rutte bauð sig fram til að taka við af honum og vann sigur í formannskjöri þann 31. maí. Hann sagði af sér sem ráðherra stuttu síðar. Rutte leiddi síðan flokkinn í þingkosningum fáeinum vikum síðar. Í kosningunum tapaði flokkurinn sex þingsætum en varð þó stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðunni.

Forsætisráðherra Hollands

Árið 2010 vann Frelsis- og lýðræðisflokkurinn flest atkvæði allra flokka og varð stærsti flokkurinn á hollenska þinginu í fyrsta sinn í sögu flokksins. Eftir langar stjórnarmyndunarviðræður tók Rutte við embætti forsætisráðherra Hollands þann 14. október. Hann var þá fyrsti frjálslyndi forsætisráðherra Hollands í 92 ár og næstyngsti forsætisráðherra í sögu landsins.[2]

Ríkisstjórn Rutte sprakk í apríl árið 2012 eftir að henni mistókst að ná fjárlagafrumvarpi sínu í gegnum þingið. Blásið var til kosninga en í kosningunum bætti Frelsis- og lýðræðisflokkurinn við sig þingsætum og stofnaði síðan nýja samsteypustjórn með Verkamannaflokknum. Stjórnin varð sú fyrsta frá árinu 1998 sem lauk kjörtímabili sínu. Í kosningum árið 2017 tapaði Frelsis- og lýðræðisflokkurinn þingsætum en var áfram stærsti flokkurinn á þinginu.[3] Eftir metlangar stjórnarmyndunarviðræður myndaði Rutte nýja stjórn ásamt Kristilegum demókrötum, Lýðræðisflokknum 66 og Kristilega bandalaginu. Rutte hóf þriðja kjörtímabil sitt sem forsætisráðherra þann 26. október 2017.

Ríkisstjórn Rutte sagði öll af sér þann 15. janúar 2021 eftir að upplýst var að á stjórnartíð hans hefðu um 26.000 fjölskyldur neyðst til að endurgreiða ríkinu barnabætur vegna falskra ásakana um að hafa svikið sér þær. Stjórnin sat þó áfram fram að kosningum sem haldnar voru þann 17. mars 2021.[4] Þrátt fyrir hneykslismálið vann flokkur Rutte flest atkvæði í kosningunum.[5]

Rutte sagði aftur af sér þann 7. júlí 2023 vegna óyfirstíganlegs ágreinings í innflytjendamálum innan samsteypustjórnarinnar.[6] Hann tilkynnti í kjölfarið að hann myndi sitja sem forsætisráðherra þar til ný stjórn yrði mynduð eftir þingkosningar, en hygðist síðan segja skilið við stjórnmál.[7]

Framkvæmdastjóri NATO

Undir lok síðasta kjörtímabils síns sem forsætisráðherra lýsti Rutte yfir áhuga á að verða næsti framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. Í febrúar 2024 höfðu stjórnir Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Þýskalands lýst yfir stuðningi við að Rutte tæki við af Jens Stoltenberg sem framkvæmdastjóri samtakanna.[8] Rúmenía varð síðasta aðildarríki NATO sem lýsti yfir stuðningi við Rutte sem næsta framkvæmdastjóra eftir að eini mótframbjóðandi hans, rúmenski forsetinn Klaus Iohannis, dró framboð sitt til baka.[9] Framkvæmdastjórn NATO staðfesti skipun Rutte sem næsta framkvæmdastjóra þann 26. júní 2024.[1]

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 Árni Sæberg (26. júní 2024). „Stað­festa skipun Ruttes“. Vísir. Sótt 26. júní 2024.
  2. „Mark Rutte: eerste liberale premier sinds 1918“ (hollenska). eenvandaag.nl. 7. október 2010. Sótt 6. nóvember 2019.
  3. Róbert Jóhannsson (16. mars 2017). „Rutte segir Hollendinga hafna popúlisma“. RÚV. Sótt 6. nóvember 2019.
  4. „Hol­lenska rík­is­stjórn­in seg­ir öll af sér“. mbl.is. 15. janúar 2021. Sótt 16. janúar 2021.
  5. Eiður Þór Árnason (17. mars 2021). „Stefnir í annað kjörtímabil Mark Rutte þrátt fyrir hneykslismál“. Vísir. Sótt 18. mars 2021.
  6. Róbert Jóhannsson (7. júlí 2023). „Rutte slítur hollenska stjórnarsamstarfinu“. RÚV. Sótt 10. júlí 2023.
  7. Atli Ísleifsson (10. júlí 2023). „Rutte hyggst segja skilið við stjórn­málin“. Vísir. Sótt 10. júlí 2023.
  8. „Mark Rutte líklega næsti framkvæmdastjóri NATO“. Varðberg. 23. febrúar 2024. Sótt 23. febrúar 2024.
  9. Lovísa Arnardóttir (20. júní 2024). „Rutte næsti fram­kvæmda­stjóri NATO“. Vísir. Sótt 25. júní 2024.


Fyrirrennari:
Jan Peter Balkenende
Forsætisráðherra Hollands
(14. október 20102. júlí 2024)
Eftirmaður:
Dick Schoof
Fyrirrennari:
Jens Stoltenberg
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins
(1. október 2024 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti


Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!