Lýðræðislegi framfaraflokkurinn er stjórnmálaflokkur á Taívan. Flokkurinn er annar af tveimur stærstu flokkum landsins ásamt kínverska þjóðernisflokknum Kuomintang. Ólíkt Kuomintang styður Lýðræðislegi framfaraflokkurinn ekki samruna Taívans við meginland Kína, þar sem Alþýðulýðveldið Kína fer með völd, heldur styður hann stofnun sjálfstæðs lýðveldis og viðurkenningu á sérstöku þjóðerni Taívana.[1] Um þessar mundir er Lýðræðislegi framfaraflokkurinn stærsti flokkurinn á löggjafarþingi Taívans og núverandi forseti Taívans, Lai Ching-te, er meðlimur í flokknum. Lai er þriðji forseti Taívans úr Lýðræðislega framfaraflokknum.
Flokkurinn rekur uppruna sinn til breiðfylkingar stjórnarandstöðuhópa sem mynduðu bandalag gegn flokksræði Kuomintangs á Taívan á níunda áratugnum. Miðað við Kuomintang er flokkurinn í dag talinn vinstri- eða miðvinstrisinnaður í félags- og efnahagsmálum og er þekktur fyrir áherslu á vernd mannréttinda og á andkommúnisma.
Fyrsti forseti Taívans úr Lýðræðislega framfaraflokknum var Chen Shui-bian, sem var kjörinn forseti árið 2000 og rauf þannig áratuga langa stjórnartíð Kuomintang. Fyrir framboð sitt hafði hann þó mildað nokkuð afstöðu sína og fallið frá stefnunni um aðdráttarlausan aðskilnað frá meginlandi Kína.[2]Tsai Ing-wen, frambjóðandi flokksins, vann forsetakosningar Taívans árin 2016 og 2020.[3]
Frambjóðandi flokksins, Lai Ching-te, vann forsetakosningar Taívans árið 2024. Þetta var þriðji sigur flokksins í röð í forsetakosningum, sem hefur ekki gerst áður.[4]