Þann 6. ágúst 1945 flaug sprengjuflugvélin Enola Gay yfir borgina Hiroshima og varpaði fyrstu kjarnokusprengju sem notuð hefur verið í hernaði á borgina. Þremur dögum síðar, eða þann 9. ágúst, var annarri kjarnorkusprengju varpað á borgina Nagasaki. Sprengjurnar höfðu skelfilegar afleiðingar fyrir íbúa borganna. Um 300 þúsund létust eða særðust og tugir þúsunda urðu fyrir langvarandi áhrifum vegna geislunar. Kjarnorkusprengingarnar á Hiroshima og Nagasaki gáfu Japönum engan annan kost en að gefast upp. Þeir skrifuðu undir friðarsáttmála 2. september 1945 og með því lauk seinni heimsstyrjöldinni.
Þróun kjarnorkuvopna
Árið 1938 höfðu þýskir vísindamenn séð möguleikann á því að þróa kjarnorkusprengjur. Almennt var þó talið að það tæki of langan tíma að þróa slíkar sprengjur og ef það tækist yrðu þær of þungar fyrir flugvélar.[1] Margir vísindamenn, listamenn og rithöfundar höfðu verið gerðir útlægir frá Þýskalandi. Albert Einstein var einn þeirra. Hann skrifaði Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta bréf þar sem hann greindi frá þessum möguleika.[2] Á fjórða áratugnum var eðlisfræðileg þekking orðin nógu mikil til að skilja hvernig þróa mætti kjarnorkuvopn og hver áhrif slíkra vopna væru. Árið 1939 var hugmyndafræðilegu takmarki náð en vandamál komu upp í sambandi við framleiðslu.[3] Erfitt reyndist að framleiða nógu kjarnakleyf efni.[4] Árið 1940 var sett á fót nefnd í Bretlandi sem kallaðist „the Maud committie“ eða „Maud-nefndin“. Henni var falið að fylgjast með gangi mála varðandi þróun kjarnorkuvopna og var skipuð tveimur virtum vísindamönnum. Í júlí 1941 gaf nefndin út yfirlýsingu þar sem hún taldi að unnt væri að smíða kjarnorkusprengju innan þess tímaramma sem að stríðið væri líklegt að taka. Þeir sögðu að nota mætti efnabreytt úran. Ríkisstjórn Breta gaf grænt ljós á framleiðslu atómsprengjanna.[5] Kostnaðurinn reyndist Bretum um megn og Bandaríkin tóku yfir verkefnið í júní 1942. Bandaríkjamenn kölluðu þetta háleynilega verkefni „Manhattan-verkefnið“ (e. Manhattan Project). Breskir vísindamenn voru fluttir til Bandaríkjanna og unnu samhliða vísindamönnunum þar undir stjórn Roberts Oppenheimer. Verkefnið í heild sinni kostaði 2 milljarða bandaríkjadala og skapaði 600 þúsund störf[6] en í heildina komu 120 þúsund manns að smíði sprengjunnar sjálfrar.[7] Sumarið 1945 hafði nógu mikið plútoníum og úran-235 verið framleitt til að prófa að sprengja kjarnorkusprengju.[8] Verkefnið náði hámarki þegar tilraunasprengja var sprengd yfir Almogordo eyðimörkinni í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum 16. júlí 1945.[9]
Aðdragandi árásarinnar
Japanir voru á undanhaldi í byrjun ágúst árið 1945. Margir landvinningar þeirra höfðu verið endurheimtir, heilu borgirnar voru rústir einar og sjóflotinn var úr sögunni.[10] Bandaríkjamenn höfðu náð eyjunum Okinawa og Iwo Jima og með því lokað á olíuforða Japana.[11] Frá bækistöðvum þar lagði bandaríski flugherinn ýmsar borgir og þugnaiðnað í rúst ásamt því að sökkva birgðaskipum Japana.[12] Leiðtogar japana voru ekki í uppgjafarhug og í örvæntingu sinni hófu Japanir þá að senda sjálfsmorðsflugmenn í bardaga.[13] Yfirherstjórn Bandaríkjanna taldi að það yrði ekki hægt að framkvæma lokainnrás í Japan fyrr en 1946. Sú innrás myndi kosta mikið manntjón eða allt að milljón fallinna. Á þetta reyndi þó ekki.[14] Roosevelt bandaríkjaforseti lést í apríl 1945. Eftirmaður hans var Harry S. Truman og tók hann ákvörðunina um að nota kjarnorkuvopnin.[15] Margir telja að kjarnorkuárásirnar á Japan hafi ekki eingöngu verið hernaðarlegs eðlis. Öllum hafi verið ljóst að Japanir væru að tapa stríðinu og að innrás yrði óþörf. Tilgangur sprenginganna hafi því verið pólitísks eðlis til að sýna fram á mátt Bandaríkjanna á eftirstríðsárunum.[16]
Árásirnar á Hiroshima og Nagasaki
Þann 6. ágúst árið 1945 flaug Enola Gay, sérútbúinni B-29 flugvél undir stjórn Paul Tibbets yfir borgina Hiroshima í Japan. Flugvélin hafði að geyma úransprengjuna „little boy“. Alls voru sjö B-29 flugvélar með í för. Samtals voru í áhöfninni 100 manns auk vísindamanna. Sprengjunni var sleppt yfir borginni úr 10 þúsund metra hæð og klukkan 08:15 sprakk hún í 600 metra hæð yfir borginni.[17] Gríðarlegur hiti myndaðist þegar sprengjan sprakk og gereyðilagði byggingar í þrettán kílómetra radíus.[18] Hiroshima varð fyrir valinu umfram aðrar borgir eingöngu vegna þess að veðurskilyrði þar voru heppileg.[19] Lítil skólastúlka lýsti því sem gerðist á því andartaki sem sprengjan sprakk í Hiroshima svona:
Það var dýrlegur sumarmorgunn hinn 6. ágúst. Ég var að leggja af stað í skólann. Þegar ég kom fram í stigaganginn sundraðist allt umhverfis mig í ægibjörtu ljósi. Allt hrundi í kringum mig og ég grófst undir spýtnabraki og glerbrotum. Þegar ég kom aftur til meðvitundar hélt ég að komin væri nótt því að niðamyrkur var á; en ég gat greint sólina sem hvíta kúlu... Á leiðinni brott sá ég skaðbrennd lík liggja eins og hráviði í skólagarðinum.[20]
Sprengjan sem sprakk yfir Hiroshima var í laginu eins og oddhvass sívalningur. Hún var fimm metra löng, þrír metrar í þvermál og fimm tonn að þyngd. Virku hlutar sprengjunnar voru fjögur lítil stykki af úrani.[21] 80 þúsund manns dóu samstundis við sprenginguna og 70 þúsund særðust.[1] Þrem dögum seinna eða þann 9. ágúst sprakk önnur kjarnorkusprengja yfir borginni Nagasaki.[22] Sú sprengja var úr plútóníum og var kölluð „Fat man“. Hún var um það bil einn og hálfur metri á breidd og þrír metrar á lengd, vó 4,6 tonn og hafði afköst á við 20 kílótonn trínítrótólúens(TNT).[23] Borgin var í skjóli fjalls svo að sprengingin varð ekki eins skaðleg og í Hiroshima. 74.000 íbúa Nagasaki létust samstundis við sprenginguna og 74 þúsund særðust. Tíu þúsundir urðu fyrir langtíma áhrifum vegna mikillar geislunar.[24]
Paul Tibbets
Paul Warfield Tibbets yngri fæddist 23. febrúar í Illinois fylki í Bandaríkjunum. Foreldrar hans, Enola Gay og Paul Warfield Tibbets vildu að hann yrði læknir en Tibbets var alltaf staðráðinn í að verða flugmaður. Í seinni heimsstyrjöldinni var Tibbets skipaður æðsti yfirmaður 340. sprengjusveitarinnar. Hann tók svo við stjórn ný stofnaðs hóps sem var falið að varpa kjarnorkusprengjunni „little boy“. Flugvélin sem hann stýrði var nefnd eftir móður hans og kallaðist því Enola Gay. Paul Tibbets lést 1. nóvember 2007, 91 árs gamall.[25]
Uppgjöf Japana
Sama dag og plútóníum sprengjan var sprengd yfir Nagasaki bað japanski forsætisráðherrann Hirohito keisara að taka ákvörðun um hvort Japanir myndu gefast upp eða ekki.[26] Japan skrifaði undir friðarsáttmála þann 2. september 1945. Sú ákvörðun byggðist bæði á sprengingunum og á því að milli sprenginganna í Hiroshima og Nagasaki réðust Sovétmenn inn í Japan. Með uppgjöf Japana lauk síðari heimsstyrjöld.[27]