Kári Árnason (f. 13. október 1982 í Gautaborg) er íslenskur fyrrum knattspyrnumaður sem er yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi.
Staða hans á vellinum var í hlutverki miðvarðar eða sem leikstjórnandi á miðju.
Kári Árnason ólst upp hjá Víkingi og spilaði með liðinu upp alla yngri flokka, utan tveggja ára í Val, og til ársins 2004 þegar hann gerðist atvinnumaður og gekk í raðir Djurgården í Svíþjóð og vann með liðinu bæði deildar- og bikarkeppnir Svíþjóðar árið 2005.
Hann spilaði einnig fyrir AGF Aarhus og Esbjerg fB í Danmörku og Plymouth Argyle og Rotherham United á Englandi. Þá varð hann sænskur meistari með Malmö FF í Svíþjóð og spilaði fyrir Omonia á Kýpur, Aberdeen F.C. í Skotlandi og síðast með Gençlerbirliği í Tyrklandi áður en hann hélt aftur á heimaslóðir sínar í Fossvogi hjá Víkingi í júnímánuði árið 2019. Kári vann tvöfalt á síðasta tímabili sínu; í deild og bikar 2021, og skoraði í bikarúrslitaleiknum.
Kári spilaði 90 leiki fyrir A-landslið Íslands frá 2005. Hann var einn mikilvægasti varnarmaður liðsins og hluti af liðinu sem komst á EM 2016 og HM 2018. Árið 2020 gaf hann það út á Wembley eftir leik við Englendinga að hann væri hættur með landsliðinu. En hann spilaði þó nokkra leiki í viðbót árið 2021.
Titlar
Víkingur
Malmö FF
Djurgården