Hugleiðingar um frumspeki eða Meditationes de Prima Philosophia (undirtitill: þar sem færðar eru sönnur á tilveru Guðs og greinarmun sálar og líkama, eða in qua Dei existentia et animae immortalitas demonstratur) er heimspekilegt ritverk eftir franska heimspekinginn René Descartes. Ritið kom fyrst út á latínu árið 1641. Frönsk þýðing eftir hertogann af Luynes, unnin í samvinnu við Descartes, kom út árið 1647 undir titlinum Méditations Metaphysiques. Ritið samanstendur af sex hugleiðingum, þar sem Descartes hafnar fyrst trú sinni á alla hluti sem hann getur ekki verið fullkomlega viss um og reynir svo að sýna fram á hvað hann getur vitað með vissu.
Í Hugleiðingunum er að finna ítarlegustu framsetningu Descartes á frumspeki sinni, sem er ítarlegri og lengri umfjöllun um efni fjórða kafla bókar hans Orðræðu um aðferð sem kom fyrst út árið 1637. Descartes fjallar einnig um frumspeki í ritinu Lögmál heimspekinnar frá árinu 1644, sem hann samdi sem einskonar inngangsrit um heimspeki.