Gervigígur er náttúrufyrirbæri sem líkist eldgígi en er án gosrásar. Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir votanjarðveg á borð við mýri eða grunnt stöðuvatn. Vatnið nær að lokast inni í eða undir hrauninu og skapa mikinn gufuþrýsting. Að lokum springur hraunþekjan og eftir verður gíglaga hóll. Gervigígar standa gjarnan margir saman í þyrpingum.
Þekktir eru gervigígarnir í Mývatni sem mynduðust þegar Laxárhraun yngra rann fyrir rúmum 2000 árum. Stærstur gervigíganna við Mývatn er Geitey sem nær 30 m hæð yfir vatnsborðið. Rauðhólar ofan við Reykjavík er annað dæmi um gervígíga en þeir mynduðust þegar Leitahraun rann yfir votlendi fyrir um 5200 árum
Gervigígar hafa einnig fundist á Mars og þykir það benda til þess að þar hafi eitt sinn runnið vatn.
Jóhann Ísak Pétursson og Jón Gauti Jónsson (2008). Almenn Jarðfræði. Iðnú.
Kristján Sæmundsson, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson, Sigurður Garðar Kristjánsson og Magnús Á. Sigurgeirsson (2010). Jarðfræðikort af Suðvesturlandi 1:100.000. Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR).