Fríríkið Kongó er nafn á landsvæði í Mið-Afríku sem var nýlenda Leópold 2. Belgíukonungs sem hann leit á sem sína einkaeign. Svæðið hlaut seinna nafnið Belgíska Kongó, síðar Saire og heitir núna Lýðstjórnarlýðveldið Kongó.
Árið 1884 var haldin Berlínarráðstefnan um ástandið í Afríku og hvernig vernda mætti íbúa þar fyrir arðráni, ekki síst þrælaverslun og þrælahaldi. Á ráðstefnuna kom meðal annars Henry Morton Stanley sem þekktur er fyrir ferð sína eftir Kongófljóti. Á ráðstefnunni var lögð á áhersla á mannúðarsjónarmið, nauðsynlegt væri að vernda íbúa Afríku og koma upp griðlandi undir vernd evrópskra valdhafa og þá Leopolds 2. Belgíukonungs. Fríríkið Kóngó var búið til í nafni mannúðarsjónarmiða. Fríríkið Kongó var til á árunum 1885 – 1908. Það varð alræmt fyrir arðrán og hve illa var farið með íbúa á svæðinu. Leópold 2. Belgíukonungur dró að sér frá svæðinu vörur eins og fílabein, gúmmí og málma og seldi á heimsmarkaði þrátt fyrir að í orði kveðnu væri afskipti hans af þessu svæði til að hlú að þróun og hjálpa íbúum. Undir stjórn Leópolds 2. varð Fríríkið Kóngó að miklu hneyksli í byrjun 20. aldar. Talið er að ofbeldiverk á tímabils hafi kostað 10 milljónir íbúa lífið og um 20 % íbúa svæðisins hafi dáið vegna þrælkunarvinnu sem íbúarnir voru þvíngaðir í. Margir urðu til að benda á ódæðisverkin í Kóngó og einn þeirra sem fletti ofan af því sem þar fór fram var rithöfundurinn Arthur Conan Doyle en hann skrifaði bók sem hlaut mikla útbreiðslu, titill hennar var The Crime of the Congo. Áríð 1908 lét belgíska ríkisstjórnin undan þrýstingi frá almenningi í mörgum löndum og Fríríkið Kongó var tekið úr höndum Leópolds 2. og svæðið var gert að belgískri nýlendu sem kallað var Belgíska Kongó.