Charlotte Schanuel (g. 1945; d. 1947), Edith Baumann[1][2] (g. 1947; skilin 1953), Margot Feist (g. 1953)[3][4]
Börn
Erika (f. 1950), Sonja (f. 1952)
Starf
Stjórnmálamaður
Undirskrift
Erich Honecker (25. ágúst 1912 – 29. maí 1994)[5] var þýskur stjórnmálamaður sem var aðalritari þýska Sósíalíska einingarflokksins og leiðtogi Austur-Þýskalands frá árinu 1971 þar til Berlínarmúrinn féll árið 1989. Frá árinu 1976 var hann jafnframt þjóðhöfðingi landsins sem formaður ríkisráðsins eftir að Willi Stoph sagði af sér.
Stjórnmálaferill Honeckers hófst á fjórða áratugnum þegar hann gerðist embættismaður þýska kommúnistaflokksins. Hann var fangelsaður fyrir stjórnmálaskoðanir sínar þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi. Eftir seinni heimsstyrjöldina var hann leystur úr haldi og hélt stjórnmálaferli sínum áfram með stofnun samtakanna Frjálsra þýskra ungmenna árið 1946. Honecker var formaður samtakanna til ársins 1955. Sem öryggisritari miðstjórnar þýska kommúnistaflokksins í hinu nýstofnaða kommúníska Austur-Þýskalandi bar Honecker mesta ábyrgð á byggingu Berlínarmúrsins árið 1961 og gaf skipun til að skjóta á þá sem reyndu að komast yfir landamærin á milli Austur- og Vestur-Þýskalands.
Árið 1971 hóf Honecker valdabaráttu gegn sitjandi leiðtoga Austur-Þýskalands, Walter Ulbricht, og tók með stuðningi Sovétríkjanna við af Ulbricht sem aðalritari miðstjórnar kommúnistaflokksins og formaður austur-þýska öryggisráðsins. Undir forystu Honeckers tók ríkið upp stefnu „neytendasósíalisma“ og aðlagaðist alþjóðasamfélaginu með því að stofna til stjórnmálasambands við Vestur-Þýskaland og gerast meðlimur í Sameinuðu þjóðunum.
Þegar slakaði á spennunni í kalda stríðinu á níunda áratugnum með frjálslyndisumbótum Míkhaíls Gorbatsjov í Sovétríkjunum neitaði Honecker að gera verulegar breytingar á stjórnarkerfi Austur-Þýskalands. Hann benti á harðlínustefnur Kim Il-sung og Fidel Castro í Norður-Kóreu og Kúbu sem fordæmi fyrir því að forðast róttækar umbætur. Eftir því sem andkommúnísk mótmæli færðust í aukana í Austur-Þýskalandi grátbað Honecker Sovétríkin um herstuðning til að vernda kommúnismann líkt og hafði verið gert í vorinu í Prag og uppreisninni í Ungverjalandi árið 1956 en Gorbatsjov neitaði. Honecker neyddist til þess að segja af sér sem flokksformaður í október árið 1989 til þess að bæta ímynd ríkisstjórnarinnar.
Eftir sameiningu Þýskalands sótti Honecker um hæli í sendiráði Síle í Moskvu árið 1991 en hann var framseldur til Þýskalands næsta ár til að hægt yrði að rétta yfir honum fyrir mannréttindabrot austur-þýsku stjórnarinnar. Hætt var við réttarhöldin vegna veikinda Honeckers og honum leyft að ferðast til fjölskyldu sinnar í Síle, þar sem hann lést í maí árið 1994 úr lifrarkrabbameini.[6]