Einveldið á Íslandi stóð frá þeim tíma þegar Íslendingar undirrituðu Erfðahyllinguna á Kópavogsfundinum 1662, tveimur árum eftir að hún var undirrituð í Danmörku, þar til það var formlega afnumið með stöðulögunum árið 1871. Áður var það afnumið í Danmörku 1848 en þarna á milli má segja að staða Íslands gagnvart konungi hafi verið óviss.
Stofnun einveldis
Í kjölfar sigurs Dana eftir umsátrið um Kaupmannahöfn í Karls Gústafs-stríðunum árið 1660 tók Dansk-norska ríkið upp einveldi á stéttaþingi í Kaupmannahöfn. Við þetta varð ríkið jafnframt að erfðaríki en hafði áður verið formlega séð kjörríki þar sem nýjum konungi hafði verið gert að undirrita réttindaskrá sem undirbúin var af danska ríkisráðinu áður en hann gat tekið við völdum. Með nýju lögunum varð konungur óháðari danska aðlinum og gat hagað stjórnskipan ríkisins að vild. Árið 1665 var einveldið staðfest með konungslögunum um einveldið (L. Lex Regia). Konungslögin voru í raun fyrsta stjórnarskrá Danmerkur og þar með Íslands. Lögin giltu í Danmörku til 5 júní 1849, þegar ný stjórnarskrá tók gildi og afnam einveldis konungs í Danmörku. Einveldið var hinsvegar ekki formlega afnumið á Íslandi fyrr en danska þingið setti einhliða á Stöðulögin árið 1871.
Stöðulögin kváðu á um að Ísland væri óaðskiljanlegur hluti af Danmerku og greiddar yrðu bætur til landsins í staðinn. Landsmenn sættu sig ekki við þessa niðurstöðu í sjálfstæðisbaráttu landsins og Alþingi hafnaði lögunum. Þremur árum síðar voru stöðulögin síðan afnumin með fyrstu sér stjórnarskrá Íslands; Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands. Þar með var staða Íslands gagnvart bæði danska ríkinu og dönsku krúnunni.
Breytt hlutverk Alþingis
Með stofnun einveldis breyttist hlutverk Alþingis þannig að lög sem komu frá Kaupmannahöfn þurftu ekki lengur staðfestingar þingsins með. Hlutverki Alþingis sem löggjafarsamkundu var þar með í raun lokið, þótt þingið setti raunar áfram lög til ársins 1700. Með stofnun hæstaréttar í Danmörku 1661 missti yfirdómur jafnframt hlutverk sitt sem æðsta dómstig landsins. Menn deila þó um hversu róttækar breytingarnar á stjórnskipan landsins voru í reynd og benda á að Alþingi hefði löngu áður verið farið að staðfesta sjálfkrafa lög frá konungi og að menn hefðu getað skotið máli sínu til konungs áður en hæstiréttur tók til starfa.
Önnur breyting sem varð á stjórn landsins með einveldinu var sú að í stað höfuðsmanns varð stiftamtmaður æðsti fulltrúi konungs á Íslandi (eftir lát Henriks Bjelke árið 1683). Hann sat lengst af í Danmörku en með vald hans á Íslandi fóru amtmenn og landfógeti sem lengst af sátu á Íslandi.
Alþingi hélt áfram dómsstörfum á Þingvöllum til aldamótanna 1800 þegar stofnaður var landsyfirréttur í Reykjavík í stað yfirdóms. Voru þá aðstæður til þinghalds við Öxará orðnar mjög slæmar vegna breytinga sem orðið höfðu á árfarveginum. Alþingi var þar með lagt niður.
Endurreisn Alþingis og endalok einveldis á Íslandi
Þegar sjálfstæðisbarátta Íslendinga hófst um miðja 19. öld ákvað konungur að koma til móts við óskir landsmanna og endurreisa Alþingi sem ráðgjafarþing í Reykjavík. Fyrsti fundur nýs þings var haldinn 1845. Með stjórnarskrá Danmerkur 1849 var einveldið lagt niður í Danmörku en staða Íslands var óljós þar til stöðulögin voru samþykkt 1871 en með þeim var staðfest að á Íslandi gilti þingbundin konungsstjórn eins og í Danmörku. Löggjafarvald Alþingis var endurreist en konungur hafði synjunarvald sem hann beitti nokkrum sinnum. Ísland fékk svo sérstaka stjórnarskrá árið 1874.
Heimildir
- Gunnar G. Schram (1997), Stjórnskipunarréttur, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, s. 129.
- Sigurður Líndal (2007), Réttarsöguþættir, Reykjavík: Háskólaútgáfan, s. 632-645.