Einkatölva er tölva sem er ætluð einum notanda í einu andstætt stórtölvu sem þjónar mörgum samtímanotendum í gegnum útstöðvar. Stærð, verð og geta einkatölva miðast þannig við milliliðalaus einkanot. Með tilkomu örgjörva um miðjan 8. áratuginn varð mögulegt að hanna minni tölvur, sem upphaflega voru kallaðar örtölvur. Undir lok 8. áratugarins var síðan farið að markaðssetja tölvur sem heimilistæki og heimilistölvan varð til samfara minnkandi framleiðslukostnaði.