Creative Commons (CC) er stofnun sem stofnuð var árið 2001 af Lawrence Lessig og helguð er útbreiðslu á skapandi verkum sem aðrir geta löglega bætt við og breytt. Stofnunin hefur höfuðstöðvar í Mountain View í Kaliforníu í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hún hefur gefið út nokkrar tegundir af höfundarréttarleyfum sem þekkt eru sem Creative Commons leyfi. Það kostar ekkert að nota þessi leyfi. Þau gera höfundum kleift að miðla hvaða réttindi þeir áskilja sér og hvaða réttindum þeir afsala sér til að auðvelda notkun á efni sínu til notenda og þeirra sem endursmíða úr öðrum verkum. Notuð eru myndræn tákn fyrir þessi höfundarleyfi sem útskýra kosti hvers leyfis. Creative Commons leyfi koma ekki í staðinn fyrir höfundarrétt heldur eru byggð ofan á höfundarrétt.