Carlos Peucelle fæddist í Buenos Aires og lék fyrir nokkur minni borgarlið áður en hann gekk til liðs við River Plate árið 1931 og lék undir þeirra merkjum næsta áratuginn. Á þeim tíma varð hann fjórum sinnum landsmeistari.
Hann lék 59 landsleiki fyrir argentínska landsliðið á árunum 1928 til 1940 og skoraði í þeim tólf mörk. Hann varð tvívegis Suður-Ameríkumeistari, árin 1929 og 1937. Hann var í leikmannahópi Argentínu á HM 1930 og lék þar fjóra leiki. Hann sat á varamannabeknum í fyrsta leiknum, gegn Frökkum en tók svo þátt í leikjunum á móti Mexíkó og Síle í riðlakeppninni. Hann skoraði tvö síðustu mörkin í 6:1 stórsigri á Bandaríkjunum í undanúrslitum og jafnaði metin í 1:1 í úrslitunum á móti Úrúgvæ.
Þjálfaraferill
Peucelle tók við þjálfun River Plate leiktíðina 1945-46 og er meðal þeirra sem taldir eru eiga hvað stærstan þátt í að skapa gullaldarlið félagsins, Vélina (spænska: La Máquina). Næstu árin ferðaðist hann um Suður-Ameríku og starfaði hjá fjölda liða sem knattspyrnuráðgjafi fremur en eiginlegur knattspyrnustjóri. Meðal landa þar sem hann drap niður fæti voru Kosta Ríka, Perú, Paragvæ og Kólumbía þar sem hann stofnaði knattspyrnuskóla sem átti eftir að hafa mikil áhrif.