Fram á 6. og 7. áratug 20. aldar voru þessi lönd hluti af Breska heimsveldinu. Þau skiptust í nokkrar nýlendur: Bahamaeyjar, Barbados, Bresku Gvæjana, Bresku Hondúras, Jamaíku (undir þá nýlendu heyrðu Turks- og Caicoseyjar og Cayman-eyjar), Trínidad og Tóbagó, Bresku Kulborðseyjar og Bresku Hléborðseyjar.
Milli 1958 og 1962 voru allar nýlendurnar á eyjunum, nema Bresku Jómfrúaeyjar og Bahamaeyjar, sameinaðar í eitt Sambandsríki Vestur-Indía. Vonir stóðu til að það fengi sjálfstæði sem eitt sambandsríki. Það gekk ekki eftir vegna ýmissa vandamála og skorts á stuðningi almennings. Sambandsríkið leystist upp 1962 og nýlendurnar sem urðu til í kjölfarið urðu flestar sjálfstæð ríki næstu ár, síðast Sankti Kristófer og Nevis árið 1983. Í dag eru aðeins Angvilla, Bermúda, Bresku Jómfrúaeyjar, Montserrat, Cayman-eyjar og Turks- og Caicoseyjar enn undir breskri stjórn.