Arnarhóll er hóll við austurenda Reykjavíkurhafnar í Reykjavík og einnig samnefndur hverfishluti í Miðborg Reykjavíkur. Hverfishlutinn telst vera svæðið austan Lækjargötu/Kalkofnsvegar, norðan Laugavegs en vestan Frakkastígs.
Arnarhóll er vinsæll staður til að renna sér á sleða þegar snjór er. Hann er einnig nýttur til skemmtanahalds.
Sagan
Fyrsti þjóðvegurinn til Reykjavíkur, Arnarhólstraðirnar, liggur sunnan í hólnum. Sú ályktun hefur verið dregin af þykkum mannvistarlögum, sem eru á stórum hluta hólsins, að fljótlega eftir að Ísland byggðist hafi myndast þar byggð.[1] Elsta byggðin mun vera frá því fyrir árið 1226 því hún er eldri en gjóska sem þá féll.[1]
Elsta varðveitta heimildin um hólinn er frá 16. öld en þar kemur fram að Arnarhólsjörðin var í eigu Hrafns Guðmundssonar bónda í Engey.[1] Þann 27. mars 1534 gaf Hrafn síðan Viðeyjarklaustri jörðina með gjafabréfi. Það bréf er svo:
„Það geri eg, Hrafn Guðmundsson, heill að viti, en krankur á líkama, góðum mönnum kunnugt með þessu mínu opnu bréfi, að eg gef jörðina alla Arnarhól, er liggur á Seltjarnarnesi í Víkur kirkjusókn, heilögu klaustri í Viðey til ævinlegrar eignar, en mér til eilífs bænahalds, með þeim skilmála, að jörðin skal hvorki seljast né gefast frá klaustrinu, en tíundast ævinlega þar sem hún liggur, þeim mönnum hjáveröndum: húsfrúnni Þórey Narfadóttur, Guðbrandi Jónssyni og Ingjaldi Jónssyni. En ef guð gefur mér minn bata, heilsu og styrk, þá er fyrnefnd jörð, Amarhóll, mín eign og í minni umsjá svo lengi sem guð gefur mér lífdagana, en eftir mína framferð skal hún klaustursins eign vera, sem fyr segir".
Ekki er víst að Hrafn hafi búið á Arnarhóli en hann er seinasti bóndinn, sem á þá jörð. Nokkrum árum seinna kastaði konungur eign sinni á allar jarðir Viðeyjarklausturs og þá hafa verið rofnir þeir skilmálar, sem Hrafn setti fyrir gjöfinni.
Þegar kaupstaður var stofnaður í Reykjavík árið 1786 og uppmæling fór fram á kaupstaðarlóðinni 1787 þá kemur fram í skjali að Arnarhólinn skuli leggjast til kaupstaðarlóðarinnar en það fórst fyrir svo að Arnarhóll lenti fyrir utan kaupstaðarlóðarinnar. Arnarhóll hefur tilheyrt Reykjavík frá 1835 en þá var bæjarlandið stækkað.[1]
Efst á Arnarhóli stendur stytta Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns í Reykjavík. Hún er eftir Einar Jónsson myndhöggvara, sem reist var af Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavik og afhjúpuð þann 24. febrúar 1924. Hugmyndir að byggingu styttunnar má rekja til miðrar átjándu aldar. Styttan er eitt merkasta kennileiti Reykjavíkur.