Ð eða ð (borið fram eð) er 5. bókstafurinn í íslenska stafrófinu. Ekkert orð í íslensku byrjar á bókstafnum ð.
Bókstafurinn Ð er einnig notaður í fornensku, færeysku og elfdælsku. Hann var einnig notaður í Skandinavíu á miðöldum en var skipt út fyrir „dh“ sem seinna var breytt í „d“. Í hástaf þekkist stafurinn á því að vera eins og D með láréttu striki í gegnum miðja línuna vinstra megin. Lástafurinn þekkist á því að vera eins og lítið bogið d með strik á toppnum.
Aðeins ein íslensk hljómsveit hefur notað bókstafinn ð sem fyrsta stafinn í nafninu sínu, það var hljómsveitin Ðe lónlí blú bojs. Í íslensku getur orð aldrei byrjað á ð. Það er vegna þess að bókstafurinn er raddað tannmælt önghljóð sem stendur aldrei fremst í íslensku hljóðkerfi.
Í færeysku tilheyrir hann ekki neinu sérstöku hljóðkerfi, til dæmis þegar ð er fyrir framan stafinn r er það stundum borið fram [ɡ]. Eins og í íslensku er ð á eftir d í færeyska stafróinu.
Tölvukóðun
Í Unicode-staðlinum er stórt ð kallað fram með kóðanum U+00D0 og lítið ð með kóðanum U+00F0. En þessir kóðar eru úr gömlum staðli, sem kallast ISO 8859-1 eða „Latin-1“.
Í Linux er hægt að kalla fram ð með því að ýta á „Compose key“ og síðan á d eða h fyrir lítið ð en fyrir stórt ýtirðu á Compose key og D eða H.
Ef stillt er á U.S. lyklaborðið í Mac OS X er hægt að kalla fram ð með því að halda inni Alt og ýta á d til að fá lítið ð en fyrir stórt ð heldur maður inni shift takkanum og alt og ýtir síðan á d.
Í Microsoft Windows er ð kallað fram með því að halda Alt inni og slá inn 0208 á talnalyklaborðinu en fyrir lítið ð helduru inni Alt og slærð inn 0240. Á US-alþjóðlegum lyklaborðum er hægt að halda inni AltGr og ýta á d til að kalla fram ð.
Málfræðingurinn Rasmus Christian Rask kom ð aftur inn í íslenskt mál.
Tenglar
Heimild
- Stefán Pálsson,Anton Kaldal Ágústsson ,Gunnar Vilhjálmsson Steinar Ingi Farestveit;Ð ævisaga;Crymogea, Reykjavík, 2012