Íslenska stafrófið er stafróf sem er notað til að skrifa íslensku. Íslenska stafrófið hefur 32 bókstafi, en 26 ef broddstafir eru ekki taldir með. Í stafrófinu eru eftirfarandi bókstafir:[1]
þar sem broddarnir (´) yfir sérhljóðum tákna hvorki breytileika í áherslu né lengd heldur annað hljóðgildi.[1] Tveir sérstafir eru í stafrófinu en þeir eru þorn og eð en stafurinn Þ hefur verið í stöðugri notkun í íslensku frá upphafi.[1]
Stafurinn Z var einu sinni hluti af stafrófinu en var tekinn út árið 1973 vegna þess að z er í íslensku borin fram eins og s og þótti því ástæða til að einfalda stafsetningu. Samtímis var rætt um að fella út y og ý en ekki náðist samstaða um það.
Fimm stafir í íslenska stafrófinu tákna tvö hljóð: x é á ó æ.
Stafirnir C, Q, W, og Z eru ekki notaðir almennt í íslensku, en koma fyrir í sumum nöfnum sem Íslendingar bera, aðallega ættarnöfnum, og eru á íslensku lyklaborði. Margir telja að þeir ættu að vera með í íslenska stafrófinu, enda er stafrófið fyrst og fremst tæki til þess að raða orðum og/eða nöfnum í "rétta" röð. Séu þessir stafir ekki á ákveðnum stað í stafrófinu getur enginn sagt hvar raða skal nöfnum eins og Carl eða Walter, sem bæði eru vel þekkt hérlendis. Stafrófið var kennt í íslenskum skólum með þessum stöfum allt fram undir 1980. Þá var stafrófið þannig: a, á, b, c, d, ð, e, é, f, g, h, i, í, j, k, l, m, n, o, ó, p, q, r, s, t, u, ú, v, w, x, y, ý, z, þ, æ, ö. Alls 36 stafir.
Íslenska stafrófið á uppruna sinn í latneska stafrófinu, sem á rætur að rekja til gríska stafrófsins.
Íslenskar stafrófsvísur
A, Á, B, D, Ð, E, É,
F, G, H, I, Í, J, K.
L, M, N, O, Ó og P,
eiga þar að standa hjá.
R, S, T, U, Ú, V næst,
X, Y, Ý, svo Þ, Æ, Ö.
Íslenskt stafróf er hér læst
í erindi þessi skrítin tvö.
- (Höfundur: Þórarinn Eldjárn)
Hér er svo upprunalega útgáfan af vísunum. Þær birtust fyrst í stafrófskveri séra Gunnars Pálssonar í Hjarðarholti, Lítið ungt stöfunarbarn, sem var prentað í Hrappsey 1782, og eru taldar vera eftir hann. Þetta er sú útgáfa sem flestir þekkja og syngja en á seinni árum hefur J og V þó yfirleitt verið bætt inn:
a, b, c, d, e, f, g
eftir kemur h, i, j, k
l, m, n, o, einnig p,
ætla eg q þar standi hjá.
r, s, t, u, v eru þar næst
x, y, ý, z, þ, æ, ö
allt Stafrófið er svo læst
í erendi þessi lítil tvö.[2]
Tilvísanir
- ↑ 1,0 1,1 1,2 „Íslenska, í senn forn og ný“ (PDF). Sótt 8. desember 2005.
- ↑ Gunnar Pálsson: Lítið ungt stöfunarbarn. Íslensk rit í frumgerð. Iðunn, Reykjavík 1982.