Ólafur liljurós er sagnadans eða danskvæði sem er til í ýmsum útgáfum víða um Norðurlönd. Kvæðið segir frá riddaranum Ólafi sem hittir álfkonu á ferð sinni. Álfkonan freistar hans með gjöfum en þegar hann vill ekki þýðast hana ýmist slær hún hann, stingur eða kastar á hann bölvun. Ólafur ríður heim og deyr skömmu síðar. Kvæðið kemur fyrir í handritum frá 16. og 17. öld. Á dönsku er það þekktast undir nafninu „Elveskud“, á norsku heitir það „Olav Liljekrans“, á færeysku „Ólavur Riddararós“ og á sænsku „Herr Olof och älvorna“. Hliðstæð kvæði þar sem riddarans er freistað af hafmeyju eru ýmsar útgáfur af „Clerk Colvill“ í Bretlandi og „Ritter Peter von Stauffenberg und die Meerfeye“ í Þýskalandi.