Æðsti leiðtogi (kínverska: 最高领导人; pinyin: Zuìgāo Lǐngdǎorén) kínverska kommúnistaflokksins, ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína og Frelsishers alþýðunnar er óformlegur titill sem vísar til valdamesta stjórnmálaleiðtogans í Kína.[1] Þeir sem bera þennan titil eru yfirleitt aðalritarar Kommúnistaflokksins og formenn hernaðarnefndar flokksins.[2] Titillinn er hins vegar hvorki formleg staða né sérstakt opinbert embætti. Hugtakið „æðsti leiðtogi“ náði útbreiðslu á valdatíð Deng Xiaopings, sem varð óumdeilanlega valdamesti leiðtogi Kínverja þrátt fyrir að vera formlega hvorki þjóðhöfðingi, ríkisstjórnarleiðtogi né flokksleiðtogi.[3] Æðsti leiðtogi Kína er talinn ein valdamesta stjórnmálastaða á heimsvísu.[4][5][6]
Hugtakið æðsti leiðtogi hefur sjaldnar verið notað um eftirmenn Dengs, Jiang Zemin, Hu Jintao og Xi Jinping, sem gegndu allir formlega embættum flokksleiðtoga, forseta og formanns hernaðarnefndarinnar. Jiang, Hu og Xi eru því yfirleitt kallaðir forsetar á alþjóðasenunni líkt og leiðtogar flestra annarra lýðvelda. Eftirmenn Dengs njóta valda sinna hins vegar í krafti embættis aðalritara Kommúnistaflokksins, sem er æðsta opinbera embættið innan kínverska stjórnmálakerfisins.[7][8][9] Samkvæmt stjórnarskrá Alþýðulýðveldisins er forsetaembættið aðallega táknrænt embætti án mikilla pólitískra valda. Það embætti er því sambærilegt við forseta Þýskalands eða forseta Íslands, sem fer að nafninu til með framkvæmdavald sem er þó í reynd í höndum ráðherra.[10]
Núverandi æðsti leiðtogi Kína, Xi Jinping, er talinn hafa tekið við stöðunni í nóvember 2012, þegar hann varð aðalritari Kommúnistaflokksins, fremur en í mars 2013, þegar hann tók við af Hu Jintao sem forseti.[11] Embætti aðalritara fer með völd yfir kínverska þinginu, ríkisráðinu, ráðgjafarráðstefnunni og hæstaréttinum.