Viðvík er bær í Viðvíkursveit í austanverðum Skagafirði, fremst í mynni Hjaltadals, sunnan Hjaltadalsár, og höfuðból sveitarinnar frá fornu fari. Þar hefur verið kirkjustaður um langan aldur; kirkju er fyrst getið þar 1189 og þá var Guðmundur góði heimilisprestur í Viðvík. Prestssetur var þar um tíma en nú er kirkjunni þjónað frá Hólum. Núverandi kirkja var byggð 1886 en turninn 1893.
Viðvík er landnámsjörð Öndótts, sem nam Viðvíkursveit en seinna bjó þar Þorbjörn öngull, banamaður Grettis sterka. Eftir því sem segir í Grettis sögu flutti Þorbjörn höfuð Grettis heim til sín í Viðvík og geymdi það þar í salti um veturinn í útibúri, sem síðan kallaðist Grettisbúr.
Á Sturlungaöld bjó Þorgils skarði Böðvarsson í Viðvík um tíma og er jarðarinnar oft getið í Sturlungu. Þar segir meðal annars frá fjörugu samkvæmislífi þar árið 1255: „Í Viðvík var gleði mikil og gott að vera, leikar og fjölmenni mikið. Það var einn Dróttinsdag, að þar var dans mikill, kom þar til fjöldi manna. Hámundur prestur frá Hólum hafði sungið á Miklabæ í Óslandshlíð um daginn; og ríður hann í Viðvík til dans, og var þar að leik, og dáðu menn mjög dans hans. En er hann kom til Hóla rak [Heinrekur] biskup hann úr kirkju með hrakningum og vildi eigi sjá hann. En er Þorgils vissi það, bauð hann presti til sín. En er Hámundur prestur birti það fyrir vinum sínum, þá tók biskup hann í sætt fyrir bæn manna; en hann var við hann aldrei jafn-vel sem áður.“
Heimildir
Hallgrímur Jónasson: Árbók Ferðafélags Íslands. Skagafjörður. Ferðafélag Íslands, 1946.
Sturlunga saga. 2. útgáfa, Mál og menninng, Reykjavík, 2010.