Varúðarreglan er meginregla sem kveður á um að ef grunur leikur á um að tiltekin framkvæmd eða stefna geti valdið almenningi eða umhverfi tjóni þá skuli skortur á vísindalegri fullvissu um að aðgerðin valdi tjóni ekki koma í veg fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir. Sönnunarbyrðin fellur því á þann sem hyggst takast framkvæmdina á hendur og aðilar geta ekki skýlt sér á bak við skort á öruggum rannsóknarniðurstöðum sem skera úr um skaðsemi framkvæmdarinnar. Reglan felur í sér viðurkenningu á þeirri félagslegu ábyrgð að verja almenning og umhverfið fyrir hugsanlegum skaða.
Kveðið er á um varúðarregluna í ýmsum alþjóðasamningum og hún hefur verið lögfest í sumum löndum en útfærsla og túlkun hennar getur verið mjög mismunandi. Það er til dæmis ekki samstaða um það hvort hún eigi að teljast meginregla eða möguleg nálgun. Hún hefur verið gagnrýnd á þeim forsendum að ströng beiting hennar geti staðið í vegi fyrir allri nýsköpun og sumir hafa haldið fram að ströng beiting varúðarreglunnar útiloki varúðarregluna sjálfa.