Vanilla er bragðefni sem kemur úr orkídeum af Vanilluætt, aðallega úr mexíkönskum tegundum (Vanilla planifolia). Þjóðir í Mið-Ameríku unnu vín sem Astekar nefndu tlilxochitl úr vanillu orkídeum. Hernán Cortés er talinn hafa kynnt vanillu og súkkulaði fyrir Evrópubúum um 1520. Þegar Spánverjar tóku Montesúma 2. til fanga sá einn af herforingjum Cortes hann drekka „chocolatl“ en það var drykkur gerður úr möluðum kakóbaunum og möluðu hveiti bragðbætt með möluðum vanillubelgjum og hunangi. Þegar til Evrópu kom varð vanilla fyrst vinsælli en súkkulaði og um 1700 hafði notkun hennar breiðst út um alla Evrópu. Í þrjár aldir var Mexíkó aðalframleiðsluland vanillu. Það mistókst í fyrstu tilraunum að rækta vanilluorkídeur utan Mexíkó og Mið-Ameríku vegna þess að orkídean var háð frjóvgun frá staðbundinni býflugnategund. Árið 1837 uppgötvaði grasafræðingurinn Charles François Antoine Morren þetta samspil og fann aðferð til að frjóvga jurtina en sú aðferð reyndist of kostnaðarsöm og erfið. Árið 1841 fann tólf ára piltur Edmond Albius sem var þræll í frönsku nýlendunni Réunion í Indlandshafi út aðferð til að handfrjóvga plöntuna. Þessi aðferð gerði það að verkum að mögulegt var að rækta vanillu víða um heim.