Tumi Kolbeinsson (d. 1184) var íslenskur goðorðsmaður á 12. öld. Hann var af ætt Ásbirninga, óskilgetinn sonur Kolbeins Arnórssonar (d. 1166), en móðir hans er óþekkt. Hann bjó í Ási í Hegranesi og var sagður mikill höfðingi. Hálfbróðir hans var Arnór, faðir Kolbeins kaldaljóss og afi Brands Kolbeinssonar.
Fyrri kona hans hét Guðrún Þórisdóttir og áttu þau eina dóttur, Sigríði, sem fyrst giftist Ingimundi Þorgeirssyni presti en skildi við hann og giftist Sigurði Ormssyni Svínfellingi. Síðari kona Tuma var Þuríður, dóttir Gissurar Hallssonar af ætt Haukdæla, og áttu þau saman börnin Kolbein, Halldóru, Arnór og Álfheiði. Eftir lát Tuma giftist Þuríður Sigurði Ormssyni, sem þá var orðinn ekkjumaður, og bjuggu þau í Svínafelli en Þuríður gekk að síðustu í klaustur. Hún er sögð hafa dáið 1225.