Thomas Schelling

Thomas Schelling

Thomas Crombie Schelling (f. 14. apríl 1921 - l. 13. desember 2016) var bandarískur hagfræðingur og prófessor við Maryland-háskóla ásamt því að starfa við New England Complex Systems Institute. Árið 2005 hlaut Schelling Nóbelsverðlaunin í hagfræði ásamt Robert Aumann fyrir framlag sitt til aukins skilnings á átökum og samvinnu með greiningu leikjafræðinnar.

Æviágrip

Schelling fæddist í Oakland í Kaliforníu en foreldrar hans voru John M. Schelling og Zelda M. Zyres. Schelling útskrifaðist frá San Diego High og fór síðan og stundaði nám við Kaliforníuháskóla í Berkeley, þar sem hann lauk B.A.-gráðu í hagfræði árið 1944. Hann hóf síðan doktorsnám í hagfræði við Harvard-háskóla og útskrifaðist þaðan árið 1948. Þá hóf Schelling að starfa á skrifstofu Bandaríkjaforseta þar sem hann kom meðal annars að Marshall-aðstoðinni og samningagerð fyrir hönd ríkisins sem síðar varð kveikjan að því að tengja samningagerð við leikjafræði. Vegna Marshall-verkefnisins eyddi hann nokkrum tíma í Evrópu þar sem hann skrifaði megnið af fræðiritgerðinni sinni um ferli þjóðartekna (e. national income behavior). Schelling starfaði á skrifstofu Hvíta hússins fram til ársins 1953 en þá sagði hann upp til þess að starfa fyrir hagfræðideild Yale-háskóla. Árið 1958 var hann skipaður sem hagfræðiprófessor þar og árið 1969 hóf hann störf í Kennedy-stofnun Harvard. Þar kenndi hann í 20 ár ásamt því að stunda rannsóknir við International Institute for Applied Systems Analysis í Austurríki á árunum 1994-1999. Hann settist í helgan stein árið 1990 en tók þó við stöðu sem háttvirtur prófessor í Maryland-háskóla.

Schelling giftist Corinne Tigay Saposs árið 1947 og saman áttu þau fjóra syni en þau skildu árið 1991. Schelling giftist aftur sama ár og skilnaðurinn átti sér stað, þá konu að nafni Alice M Coleman.[1]

Árið 2009 hlaut Schelling sérstaka heiðurs-doktorsgráðu frá Yale-háskóla og einnig frá Manchester-háskóla.

Verk Schelling

Schelling gaf út heilmikið af bæði bókum og greinum. Meðal greina sem höfðu mikil áhrif og margir telja áhrifaþátt þess að hann hlaut Nóbelsverðlaunin eru greinarnar „Essay on Bargaining“ sem kom út 1956 og „Bargaining, Communication, and Limited War“ sem kom út 1957. Þar kemur hann heilmikið inn á samvinnu og átök í leikjafræðilegum skilningi þó án þess að hafa kynnt sér formlega leikjafræði líkt og hann gerði seinna. Einnig hafði bók hans Micromotives and Macrobehavior mikil áhrif en í henni má finna mörg dæmi um leikjafræði.

The Strategy of Conflict

Bók Schelling, The Strategy of Conflict sem út kom 1960[2] var mikið tímamótaverk þar sem hún ruddi brautina fyrir fræði um samninga og hernaðarskipulag í því sem Schelling kallar atferli átaka (e. Conflict behavior). Bókin er talin hafa verið ein af 100 áhrifamestu bókum á Vesturlöndum síðan 1945. [3] Í bókinni kynnir hann mikilvæg hugtök leikjafræðinnar eins og miðpunktur (e. focal point) og trúverðug skuldbinding (e. credible commitment).

Í grein þar sem Nóbelsverðlaunum Schelling í hagfræði er fagnað [4] dregur greinahöfundurinn Michael Kinsley hjá Washington Post og fyrrum nemandi Schelling nýjar áherslur Schellings í leikjafræði saman á eftirfarandi hátt:

Þú stendur á bjargbrún, hlekkjaður á ökklanum við annan aðila. Ykkur verður sleppt og annar ykkar fær stór verðlaun um leið og hinn gefur eftir. Hvernig sannfærirðu hinn aðilann um að gefa eftir þegar eina aðferðin sem þú gætir nýtt þér er að hóta því að ýta honum af bjarginu sem myndi drepa ykkur báða.

Svar: Þú byrjar að færa þig nær og nær bjargbrúninni. Þannig þarftu ekki að sannfæra hann um að þú myndir gera eitthvað fáránlegt, það er henda honum og sjálfum þér af bjarginu. Þú þarft bara að sannfæra hann um að þú sért tilbúin til að taka meiri áhættu en hann á því að detta fyrir slysni af bjarginu. Ef þú getur gert það, þá vinnur þú.

Arms and Influence

Kenningar Schelling um stríð voru útvíkkaðar í bók hans Arms and Influence sem kom út 1966.[5]. Textinn á kápu bókarinnar segir að hún haldi áfram með þá greiningu sem svo snilldarlega byrjaði í fyrra verki hans, The Strategy of Conflict og Strategy and Arms Control sem hann skrifaði með Morton Halperin og kom út árið 1961 en jafnframt sé hún mikilvægt innlegg í vaxandi bókmenntir um nútímastríð og ríkiserindrekstur.

Models of Segregation

Árið 1969 gaf Schelling út grein um kynþætti sem kallaðist „Models of Segregation“ eða „Módel aðskilnaðar“ sem mikið hefur verið vísað í síðan.[6] Í greininni sýnir Schelling fram á að hin minnsta löngun í að velja sér nágranna af sama kynþætti og maður sjálfur gæti leitt til algjörrar aðskilnaðarstefnu. Hann notaði myntir á grafpappír til að sýna kenningu sýna með því að setja krónur og aura í mismunandi munstur á spjaldið og síðan að færa myntirnar eina af einni ef þeir væru í „óhamingjusamri“ stöðu. Á endanum myndu allar krónurnar koma saman á ákveðin part blaðisins og allir aurarnar safnast saman á öðrum. Þetta gæti síðan gerst hvar sem er með hverskonar hópa sem er; það er þetta gæti gerst í íbúðarhverfum, á kaffihúsi eða hvers konar opinberum stöðum og gæti greinst að eftir kynþætti, eftir aldurshópum, eftir kyni og svo framvegis.

Tengt efni

Tilvísanir

  1. „Thomas C. Schelling“. The Notable Names Database. 2008. Sótt 18. nóvember 2008.
  2. Schelling, Thomas C. (1980). The Strategy of Conflict (Reprint, illustrated and revised.. útgáfa). Harvard University Press. bls. 309. ISBN 9780674840317. Sótt 21. september 2010.
  3. The Hundred Most Influential Books since the War
  4. A Nobel Laureate Whose Got Game, The Washington Post. 12 October 2005.
  5. Yale University Press
  6. Schelling, T. (1969). Models of segregation. The American Economic Review, 59(2), 488-493.

Heimildir

Tenglar

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!