Fylkið dregur nafn sitt af því að meirihluti íbúa eru Tamílar og tamílska er opinbert tungumál þess. Í Tamil Nadu var miðstöð hinna ýmsu Chola-velda sem höfðu mikil áhrif á Indlandi og í Suðaustur-Asíu. Hollendingar, Danir og Frakkar stofnuðu nýlendur á strönd Tamil Nadu á 17. öld. Breska Austur-Indíafélagið lagði héraðið að mestu leyti undir sig í upphafi 19. aldar og hernam svo eða keypti nýlendur annarra ríkja á svæðinu. Þegar Indland hlaut sjálfstæði 1947 varð Tamil Nadu hluti af Madrasfylki sem síðar var skipt upp.