Spænska heimsveldið

Kort sem sýnir öll þau lönd sem hafa á einhverjum tíma verið hluti af Spænska heimsveldinu.

Spænska heimsveldið var fyrsta heimsveldi sögunnar og eitt af þeim stærstu. Það náði yfir nýlendur og yfirráðasvæði Spánar í sex heimsálfum og stóð frá 15. öld til síðari hluta 20. aldar.

Upphaf

Upphaf Spænska heimsveldisins má rekja til hjónabands Ferdinands og Ísabellu árið 1469 en við það sameinuðust öll lönd Kastilíu og Aragón í eitt ríki. Kastilía hafði áður lagt Kanaríeyjar undir sig og Aragón tilheyrðu meðal annars Sardinía og Suður-Ítalía. 1492 hélt Kristófer Kólumbus síðan til Vestur-Indía sem hann lagði undir Spán. Páfi staðfesti tilkall Spánar með páfabullunni Inter caetera árið 1493 og með Tordesillas-sáttmálanum 1494 var heiminum utan Evrópu skipt í áhrifasvæði Portúgala og Spánar. Þegar Karl 1. Spánarkonungur varð jafnframt keisari yfir hinu Heilaga rómverska ríki árið 1519 var sagt að sólin settist aldrei í ríki hans. 1580 gengu Spánn og Portúgal síðan í konungssamband og heimsveldið náði hápunkti sínum. Spánverjar áttu þá atvinnuher sem talinn var nánast ósigrandi.

Hnignun heimsveldisins

1640 klauf Portúgal sig frá Spáni og 1643 beið spænski herinn ósigur fyrir þeim franska í orrustunni við Rocroi. Ósigurinn er gjarnan látinn marka endalok spænsku gullaldarinnar. 1648 viðurkenndu Spánverjar svo sjálfstæði Hollands sem hafði í reynd staðið frá 1581. Spænska heimsveldinu tók að hnigna hratt og með Spænska erfðastríðinu misstu þeir öll völd í Evrópu utan Íberíuskagans. Hið mikla nýlenduveldi Spánar utan Evrópu átti þó blómaskeið á 18. öld þótt oft kæmi til átaka við Breska heimsveldið. Napóleonsstyrjaldirnar mörkuðu upphafið að endalokunum fyrir þetta nýlenduveldi. Spænski flotinn eyðilagðist að stórum hluta í orrustunni við Trafalgar 1805 og 1806 hófst sjálfstæðisbarátta nýlendnanna í Rómönsku Ameríku sem leiddi til missis nánast allra nýlendnanna í Nýja heiminum, nema Kúbu og Púertó Ríkó, um 1826. Eftir ósigur í stríði Spánar og Bandaríkjanna 1898 misstu Spánverjar síðustu nýlendur sínar í Ameríku, Asíu og Eyjaálfu.

Afríka

Í Afríku átti Spánn fáar nýlendur utan Kanaríeyja og Miðbaugs-Gíneu (sem þeir fengu frá Portúgal í skiptum fyrir stærstan hluta þess lands sem nú er Brasilía), en á 19. öld hófu Spánverjar að auka áhrif sín í Norður-Afríku. 1848 lögðu þeir Islas Cafharinas við strönd Marokkó undir sig og 1884 fengu þeir viðurkennt forræði yfir Vestur-Sahara. 1911 skiptu Spánn og Frakkland Marokkó á milli sín. Þegar Franska Marokkó fékk sjálfstæði 1956 létu Spánverjar Spænsku Marokkó eftir við hið nýja ríki en héldu samt borginni Sidi Ifni og Vestur-Sahara.

Eftir þrýsting frá alþjóðasamfélaginu veittu Spánverjar Miðbaugs-Gíneu sjálfstæði 1968 og létu Marokkó Sidi Ifni eftir 1969. 1975 hurfu þeir frá Vestur-Sahara en staða þess svæðis er enn umdeild. Eftir standa eyjarnar og borgirnar Ceuta og Melilla á norðurströnd Marokkó sem Marokkó gerir tilkall til.

Áhrif

Áhrif Spænska heimsveldisins voru meðal annars þau að spænska er töluð í flestum löndum Rómönsku Ameríku og Spænsku Austur-Indíum og rómversk-kaþólska er ríkjandi trúarbrögð í þessum löndum.

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!