Spænska heimsveldið var fyrsta heimsveldi sögunnar og eitt af þeim stærstu. Það náði yfir nýlendur og yfirráðasvæði Spánar í sex heimsálfum og stóð frá 15. öld til síðari hluta 20. aldar.
1640 klauf Portúgal sig frá Spáni og 1643 beið spænski herinn ósigur fyrir þeim franska í orrustunni við Rocroi. Ósigurinn er gjarnan látinn marka endalok spænsku gullaldarinnar. 1648 viðurkenndu Spánverjar svo sjálfstæði Hollands sem hafði í reynd staðið frá 1581. Spænska heimsveldinu tók að hnigna hratt og með Spænska erfðastríðinu misstu þeir öll völd í Evrópu utan Íberíuskagans. Hið mikla nýlenduveldi Spánar utan Evrópu átti þó blómaskeið á 18. öld þótt oft kæmi til átaka við Breska heimsveldið. Napóleonsstyrjaldirnar mörkuðu upphafið að endalokunum fyrir þetta nýlenduveldi. Spænski flotinn eyðilagðist að stórum hluta í orrustunni við Trafalgar 1805 og 1806 hófst sjálfstæðisbarátta nýlendnanna í Rómönsku Ameríku sem leiddi til missis nánast allra nýlendnanna í Nýja heiminum, nema Kúbu og Púertó Ríkó, um 1826. Eftir ósigur í stríði Spánar og Bandaríkjanna 1898 misstu Spánverjar síðustu nýlendur sínar í Ameríku, Asíu og Eyjaálfu.
Afríka
Í Afríku átti Spánn fáar nýlendur utan Kanaríeyja og Miðbaugs-Gíneu (sem þeir fengu frá Portúgal í skiptum fyrir stærstan hluta þess lands sem nú er Brasilía), en á 19. öld hófu Spánverjar að auka áhrif sín í Norður-Afríku. 1848 lögðu þeir Islas Cafharinas við strönd Marokkó undir sig og 1884 fengu þeir viðurkennt forræði yfir Vestur-Sahara. 1911 skiptu Spánn og Frakkland Marokkó á milli sín. Þegar Franska Marokkó fékk sjálfstæði 1956 létu Spánverjar Spænsku Marokkó eftir við hið nýja ríki en héldu samt borginni Sidi Ifni og Vestur-Sahara.
Eftir þrýsting frá alþjóðasamfélaginu veittu Spánverjar Miðbaugs-Gíneu sjálfstæði 1968 og létu Marokkó Sidi Ifni eftir 1969. 1975 hurfu þeir frá Vestur-Sahara en staða þess svæðis er enn umdeild. Eftir standa eyjarnar og borgirnar Ceuta og Melilla á norðurströnd Marokkó sem Marokkó gerir tilkall til.