Sigurlaug Bjarnadóttir (f. 4. júlí 1926 - d. 5. apríl 2023) var fyrrverandi alþingismaður og frönskukennari.
Sigurlaug sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vestfjarðakjördæmi 1974-1978 og sem varaþingmaður flokksins frá 1980-1983.
Sigurlaug fæddist í Vigur við Ísafjarðardjúp og bjó þar í foreldrahúsum til 15 ára aldurs er hún hóf nám við Menntaskólann á Akureyri.[1] Foreldrar hennar voru hjónin Bjarni Sigurðsson bóndi í Vigur og Björg Björnsdóttir húsmóðir. Bróðir Sigurlaugar var Sigurður Bjarnason fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, alþingismaður og sendiherra. Eiginmaður Sigurlaugar var Þorsteinn Thorarensen lögfræðingur og bókaútgefandi og eignuðust þau þrjú börn.
Nám og störf
Stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1947, BA-próf í ensku og frönsku við Leeds-háskóla árið 1951 og framhaldsnám í frönsku og frönskum bókmenntum við Sorbonne háskóla í París árið 1951-1952.
Sigurlaug starfaði sem kennari við Gagnfræðaskóla Akraness 1947-1948, var blaðamaður á Morgunblaðinu 1952-1955, stundakennari við Verslunarskóla Íslands 1952-1953 og við Námsflokka Reykjavíkur 1953-1955 og 1956-1958 og Málaskólann Mími 1960-1961. Hún var kennari við Gagnfræðaskóla Austurbæjar frá 1956–1966 og Menntaskólann við Hamrahlíð frá 1967-1994.
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1970–1974, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna 1975–1979 og sat í menntamálaráði 1979–1983. Sigurlaug var um tíma formaður Æðarræktarfélags Íslands og einnig formaður Félags frönskukennara á Íslandi um árabil.[2]
Sérframboð árið 1983
Árið 1983 varð klofningur í Sjálfstæðisflokknum á Vestfjörðum og var Sigurlaug á meðal þeirra sem stofnuðu nýtt framboð sem bauð fram í alþingiskosningunum árið 1983. Framboðið gekk undir nafninu Sérframboð sjálfstæðra á Vestfjörðum og bauð fram undir listabókstafnum T og var Sigurlaug í fyrsta sæti listans.[3] Framboðið náði ekki manni á þing en hlaut 11,6% atkvæða í kjördæminu.[4]
Árið 1986 kom út bókin Með storminn í fangið eftir Sigurlaugu en þar segir hún frá klofningnum innan Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum og þátttöku sinni í sérframboði sjálfstæðismanna.
Tilvísanir
- ↑ „Bjálfaþægðin ekki að mínu skapi“, Helgarpósturinn, 17. júní 1987, (skoðað 12. júní 2019)
- ↑ Alþingi, Æviágrip - Sigurlaug Bjarnadóttir (skoðað 12. júní 2019)
- ↑ „Sérframboð sjálfstæðismanna á Vestfjörðum: Fær listabókstafinn T“, Tíminn, 25. mars 1983, (skoðað 12. júní 2019)
- ↑ „Úrslit alþingiskosninga 1983“, Morgunblaðið, 26. apríl 1983, (skoðað 12. júní 2019)