Sóttvarnarhúsið í Ánanaustum er hús sem stendur við Ánanaust 11 í Vesturbæ Reykjavíkur. Það var byggt á árunum 1903–1906 og er einfalt bárujárnshús sem hefur ýmis einkenni sveitserhúsa. Húsið var portbyggt með kvistútbyggingu og undir því var hár kjallari.
Í lögum frá 1902 var kveðið á um að byggja skyldi sérstök sóttvarnarhús í kaupstöðum landsins á kostnað landssjóðs. Árið 1903 var ákveðið að reisa sóttvarnarhús fyrir Reykjavík neðst í túni Miðsels niður við sjó en það var þá töluvert fyrir utan byggðina í Reykjavík. Árið 1905 var húsið ennþá í byggingu en þó komið það langt að byrjað var að hafa þar sjúklinga í sóttkví. Smíði hússins var að mestu lokið haustið 1906. Árið 1935 voru þar 25 sjúkrarúm.
Árið 1925 voru sóttvarnarhús á Seyðisfirði, Akureyri og Ísafirði aflögð með lögum og eftir það þjónaði sóttvarnarhúsið í Reykjavík öllu landinu. Árið 1954 var starfsemin lögð niður í Reykjavík og húsið selt Landhelgisgæslunni.
Heimild