Rudi Völler

Rudi Völler árið 2009

Rudi Völler (13. apríl 1960 í Hanau) er þýskur knattspyrnumaður og þjálfari. Hann var á sínum tíma einn marksæknasti landsliðsmaður í þýska landsliðinu og varð heimsmeistari 1990. Í fjögur ár þjálfaði hann sjálfur þýska landsliðið.

Leikferill

Rudolf Völler fæddist í þýsku borginni Hanau og hóf knattspyrnuiðkun sem ungur drengur, enda var faðir hans drengjaþjálfari í Hanau. Hann hóf feril sinn með Kickers Offenbach 16 ára gamall og fékk að leika með aðalliðinu 17 ára (1977). 1980 skrifaði hann undir fyrsta samning sinn við 1860 München og féll með liðinu í 2. deild strax á fyrstu leiktíð. Vegna fjárhagsvandræða 1860 München var félaginu refsað af þýska knattspyrnusambandinu 1982 og látið spila í 3. deild. Þá fór Völler til Werder Bremen og þar sló hann rækilega í gegn sem markaskorari. Á 5 árum spilaði hann 137 leiki og skoraði í þeim 97 mörk. Strax á fyrstu leiktíð náði Bremen 2. sæti í 1. deildinni með sama stigafjölda og meistarar HSV, en með lélegra markahlutfall. Á sama ári var í fyrsta sinn kallaður í þýska landsliðið og kom inná sem varamaður fyrir Lothar Matthäus í 0-1 ósigri gegn Norður-Írlandi. 1987 fór Völler til Ítalíu og spilaði í 5 ár með AS Roma. Þar upplifði hann sín bestu ár sem knattspyrnumaður. Fyrsta árið lenti liðið í 3. sæti í deildinni, 1991 varð hann bikarmeistari og 1990 varð hann heimsmeistari með þýska landsliðinu. Í úrsitaleiknum gegn Argentínu sigruðu Þjóðverjar 1-0 með vítaspyrnu, en það var einmitt Rudi Völler sem var felldur í vítateig andstæðinganna. Úr vítinu skoraði Andreas Brehme. 1992 tók Völler við fyrirliðastöðunni í þýska landsliðinu þegar Lothar Matthäus meiddist á hné. 1992 spilaði Völler með Olympique Marseille og vann Meistaradeild Evrópu með því liði. 1994 lék Völler sinn síðasta landsleik er Búlgarar slógu Þjóðverja út í 8 liða úrslitum á HM. Hann hafði þá leikið 90 landsleiki og skoraði í þeim 47 mörk. Þar með er Völler þriðji markahæsti leikmaður þýska landsliðsins, ásamt Jürgen Klinsmann (á eftir Gerd Müller og Miroslav Klose). 1994 sneri Völler aftur til Þýskalands og lék með Bayer Leverkusen í tvö ár, en að þeim loknum lagði hann skóna á hilluna. Reyndar starfaði hann áfram hjá félaginu sem yfirmaður knattspyrnumála.

Þjálfaraferill

Á EM 2000 var þýska landsliðið slegið út í riðlakeppninni og var þjálfarinn, Erich Ribbeck, þá látinn fara. Þá tók Rudi Völler við landsliðinu og var þjálfari þess í 4 ár. Besta árangrinum með liðinu 2002 á HM í Suður-Kóreu og Japan, en þar komst Þýskaland í úrslitaleikinn. Þjóðverjar biðu lægri hlut fyrir Brasilíu 0-2. Rudi Völler var yfirhöfuð rólegur maður og afar kurteis. En eftir mikla gagnrýni fréttamanna á störf sín í undankeppni fyrir EM 2003 missti hann stjórn á skapi sínu þegar Þýskaland gerði 0-0 jafntefli við Ísland á Laugardalsvelli. Í beinni útsendingu að leik loknum skammaðist hann í fréttamenn og lét ýmis óvægin orð falla. Hann baðst seinna afsökunar á orðavali sínu, en hélt þó fast við gagnrýni sína. Í úrslitakeppninni sjálfri náði Þýskaland ekki að komast upp úr riðli sínum. Við svo búið sagði Völler af sér. Við þjálfarastöðunni tók Jürgen Klinsmann. Seinna á árinu gerðist Völler þjálfari AS Roma, en sagði af sér eftir aðeins mánuð þar, vegna lélegs gengis. Eins og er starfar Rudi Völler enn sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Bayer Leverkusen.

Félög sem leikmaður

Félag Ár Leikir Mörk
Kickers Offenbach 1977-1980 73 18
TSV 1860 München 1980-1982 70 46
Werder Bremen 1982-1987 137 97
AS Roma 1987-1992 142 44
Olympique Marseille 1992-1994 58 24
Bayer Leverkusen 1994-1996 62 26

Stórmót

Stórmót Staður Árangur Mörk
EM 1984 Frakkland Riðlakeppni 2
HM 1986 Mexíkó Úrslit 3
EM 1988 Þýskaland Undanúrslit 2
HM 1990 Þýskaland Meistari 3
EM 1992 Svíþjóð Úrslit 0
HM 1994 Bandaríkin 8 liða úrslit 2

Markvert

Rudi Völler gerður að heiðursborgara Hanau 2002
  • Rudi Völler er kvæntur Sabrínu Völler frá Ítalíu (2. hjónaband hans). Alls á Völler tvo syni og tvær dætur.
  • 2002 var Rudi Völler gerður að heiðursborgara heimaborgar sinnar Hanau.
  • Völler fékk snemma gælunafnið Tante Käthe (Käthe frænka) og er það tilkomið vegna hárgreiðslu hans.

Heimildir

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!