Ragnheiður Jónsdóttir Ream (1917 – 1977) var íslensk myndlistarkona.
Ragnheiður var dóttir Jóns Halldórssonar söngstjóra, og konu hans, Sigríðar Bogadóttur.
Í byrjun seinni heimsstyrjaldar hélt Ragnheiður til Bandaríkjanna. Samskipta henni vestur um haf var m.a. Louise Matthíasdóttir sem var á leið til myndlistarnáms í New York. Það var þó aðeins merkileg tilviljun því Ragnheiður var ekkert farin að huga að myndlist þegar hér var komið sögu. Hún vann í íslenska sendiráðinu í Washington, og kynntist mannsefni sínu í þeirri borg, Donald Forest Ream, eðlisfræðingi. Ragnheiður fór fyrst að fikta við að mála komin yfir þrítugt, og leiðin lá í kvöldskóla og síðan í dagskóla áhugamanna í tvö ár. Þá var svo komið, að hún ákvað að innritast í Listadeild American University í Washington þar sem hún var við nám næstu fimm árin (1954-1959).
Frá fyrstu sýningu Ragnheiðar hérlendis og til andláts hennar liðu einungis tíu ár. Einkasýningar hennar urðu þrjár og þar af ein stór í Norræna húsinu, - þá var hún þátttakandi í sumarsýningu Norræna hússins 1976. Hún var og þátttakandi í fimm Haustsýningum FÍM og sumarsýningu Myndlistarhússins á Miklatúni 1973. Þá var henni boðið að vera með í sýningu „8 islandske kunstnere“, í Björgvin, Kiruna og Luleå árið 1975.
Helstu áhrifavaldar í list hennar voru þeir Mark Rothko og Richard Diebenkorn.
Tenglar