Queen's Park Football Club er skoskt knattspyrnufélag frá Glasgow, stofnað árið 1867. Það er elsta starfandi knattspyrnufélag veraldar utan Englands og Wales. Queen´s er eitt sögufrægasta lið fótboltans, varð tíu sinnum skoskur bikameistari og lék tvívegis til úrslita í enska bikarnum undir lok nítjándu aldar. Félagið var eina áhugamannaliðið í skosku deildarkeppninni til ársins 2019 þegar ákveðið var að taka upp atvinnumennsku. Heimavöllur Queen´s Park til ársins 2021 var þjóðarleikvangurinn Hampden Park.
Saga
Upphafið
Queen's Park F.C. var stofnað þann 9. júlí árið 1867 af hópi manna úr KFUM-deild í Glasgow. Ýmis nöfn komu til greina á stofnfundinum og varð heitið Queen´s Park fyrir valinu með eins atkvæðis mun. Fyrstu mótherjar félagsins, Thistle F.C., var stofnað nokkru síðar og mættust liðin í ágústbyrjun 1868 og lauk leiknum með sigri Queen´s Park.
Hið nýstofnaða félag varð þegar ráðandi afl á sviði skoskrar knattspyrnu. Það hélt utan um reglur íþróttarinnar, beitti sér fyrir stofnun knattspyrnusambands og réð mestu um málefni landsliðsins. Þegar Englendingar og Skotar mættust í fyrsta opinbera landsleiknum í sögunni, árið 1872, voru allir leikmenn skoska liðsins úr röðum Queen´s Park og léku í bláum treyjum sem þá var einkennislitur félagsins. Um fjögurþúsund áhorfendur sáu skoska liðið notast við leikkerfið 2-2-6 á meðan Englendingar stilltu upp með 1-1-8.
Queen´s Park var eitt af níu stofnfélögum Skoska knattspyrnusambandins árið 1873. Síðar sama ár tók félagið í notkun nýjan heimavöll, Hampden Park. Var það fyrsti völlurinn af þremur til að bera það heiti. Við sama tilefni kynnti félagið nýjan búning, þverröndóttar svartar og hvítar treyjur sem verið hafa einkennislitir Queen´s Park upp frá því.
Yfirburðalið
Vígsluleikur Hampden Park var jafnframt fyrsti leikur félagsins í nýstofnaðri keppni, skosku bikarkeppninni. Queen´s Park varð bikarmeistari í þrjú fyrstu skiptin sem keppnin var haldin og bætti síðan sjö titlum við til viðbótar. Þeim síðasta árið 1893.
Skoskum liðum var oft boðið að taka þátt í ensku bikarkeppninni á þessum árum. Tvisvar fór Queen´s Park alla leið í úrslitin en tapaði þar, árin 1884 og 1885. Í tvö önnur skipti komst Queen´s Park í undanúrslit en neyddist til að gefa leiki sína þar vegna mikils ferðakostnaðar.
Sama ár og Queen´s Park vann sinn tíunda og síðasta bikarmeistaratitil var atvinnumennska heimiluð. Deilur um hana höfðu komið í veg fyrir að félagið gerðist aðili að skosku deildarkeppninni þegar hún var stofnsett árið 1890. Queen´s Park ákvað að standa vörð um áhugamennskuhugsjónina. Árið 1900 gekk það til liðs við skosku deildina, en fljótlega kom í ljós að áhugamenn gátu ekki staðið atvinnumönnum á sporði.
Áhugamenn í atvinnuheimi
Queen´s Park lét samfleytt í efstu deild í Skotlandi frá aldamótaárinu til 1939, að leiktíðinni 1922-23 undantekinni. Oftast nær var félagið þó fyrir neðan miðja deild og mátti raunar undrum sæta hversu þaulsetið félagið var í deild hinna bestu. Eftir fall vorið 1939 hóf liðið keppni í næstefstu deild en mótið var flautað af eftir fáeinar umferðir þegar síðari heimsstyrjöldin braust út. Þegar formleg knattspyrnukeppni hófst að nýju veturinn 1946-47. Vorið 1948 féll Queen´s Park aftur niður um deild. Síðustu tvær leiktíðir félagsins í efstu deild voru 1956-57 og 1957-58. Seinna árið kolféll liðið eftir að hafa einungis unnið fjóra leiki allan veturinn og endaði með 73 mörk í mínus.
Næstu árin einkenndust af miðjumoði hjá Queen´s Park í annarri deild. Árið 1975 var deildarkeppnin endurskipulögð og þriðju deildinni bætt við. Félagið lék þar næstu árin, en leiktíðina 1980-81 varð það meistari, nokkuð óvænt. Dvölin í næstefstu deild varð þó ekki nema tvö ár. Vorið 1995 var keppnisfyrirkomulagið endurskoðað enn á ný og fjórðu deildinni bætt við. Upp frá því hefur Queen´s Park rokkað milli þriðju og fjórðu efstu deildar. Frá lokum seinni heimsstyrjaldar hefur Queen´s Park aldrei farið lengra en í 16-liða úrslit skoska bikarsins.
Það þótti löngum kyndugt að Queen´s Park léki heimaleiki sína í neðri deildum Skotlands fyrir fram rétt um 1000 áhorfendur á Hampden Park, einum stærsta velli Evrópu. Við hlið Hampden Park var komið upp minni velli, Lesser Hampden, sem þótti henta betur miðað við umfang leikja félagsins. Unnið er að endurbótum á Lesser Hampden sem verður framtíðarheimavöllur liðsins, en sem stendur fara leikir þess fram á Firhill Stadium. Binda stuðningsmenn Queen´s Park vonir við að nýr heimavöllur og nýtilkomin atvinnumennska, frá 2019, muni gerar félagið samkeppnishæfara á komandi árum.
Titlar
- Skoski bikarinn (10): 1873-74, 1874-75, 1875-76, 1879-80, 1880-81, 1881-82, 1883-84, 1885-86, 1889-90, 1892-93