Pottaska (K2CO3) er efnasamband kalíns og karbónats. Pottaska hefur frá fornu fari verið notuð til að búa til gler og sápu og í tilbúinn áburð. Nafnið vísar til þess að efnið var unnið úr viðarösku. Pottaskan hefur þrjú nöfn samkvæmt gömlum bókum: Alkali, lútarsalt og pottaska.
Pottaska er víða í gömlum uppskriftum. Stundum hefur hún verið notuð í stað lyftidufts. Einnig var hægt að nota hana til að koma í veg fyrir að mjólk ysti, eða eins og segir í gömlu húsráði:
Ef mjólk ysti við suðu, var látið dálítið af hreinsaðri pottösku í mjólkina og hún soðin nokkra stund og hrært vel í pottinum, þá losnaði draflinn í sundur og mjólkin varð jafngóð aftur.