Papýrus (úr grísku: πάπυρος, papyros) eru þunn blöð, lík pappír (sem dregur nafn sitt af honum), unnin úr stönglumpapýrusreyrs (Cyperus papyrus) sem í fornöld var algeng votlendisplanta í Nílarósum. Forn-Egyptar notuðu þennan reyr til skipasmíða, til að vefa úr mottur og til að framleiða papýrus. Papýrus var aðalritmiðill Egypta og notaður bæði fyrir stutt skilaboð og áletranir og fyrir lengri bókmenntaverk og skrár. Lengri papýrushandritum var rúllað upp á kefli, en papýrusinn skemmist ef hann er brotinn saman. Papýrusinn er einfaldur og ódýr í framleiðslu þar sem nóg er af reyr, en hann er aftur á móti viðkvæmur fyrir bæði of miklum raka og of miklum þurrki. Papýrus og bókfell voru notuð sem ritmiðlar samhliða í eitt og hálft árþúsund, en á miðöldum varð bókfellið ofan á.