Nina Simone

Nina Simone árið 1965.

Eunice Kathleen Waymon (21. febrúar, 1933 – 21. apríl, 2003), þekkt undir listamannsnafninu Nina Simone, var bandarísk söngkona, lagahöfundur, tónskáld, útsetjari og baráttukona. Sem tónlistarkona fékkst hún við mikinn fjölda tónlistartegunda, þar á meðal klassíska tónlist, djass, blús, þjóðlagatónlist, rytmablús, gospeltónlist og popptónlist.

Hún var sjötta í röðinni af átta börnum fátækrar fjölskyldu frá Tryon í Norður-Karólínu. Upphaflega ætlaði hún sér að verða konsertpíanisti.[1] Með hjálp stuðningsfólks frá heimabæ hennar skráði hún sig í Juilliard-skólann í New York-borg.[2] Síðan sótti hún um inngöngu í Curtis Institute of Music í Philadelphia, en komst ekki inn þrátt fyrir vel heppnaða áheyrnarprufu.[3] Hún vildi meina að það hefði verið vegna kynþáttahaturs. Stofnunin veitti henni heiðursgráðu árið 2003, nokkrum dögum áður en hún dó.[4]

Simone hóf að vinna fyrir sér með því að leika á píanó í næturklúbbi í Atlantic City. Hún tók upp nafnið Nina Simone til að fjölskylda hennar kæmist ekki að því að hún væri kokkteilpíanisti. Í næturklúbbnum hóf hún að syngja við eigin undirleik og hóf þannig feril sem djasssöngkona.[5] Hún gaf út fyrstu breiðskífu sína, Little Girl Blue, árið 1958 með lögunum „I Loves You, Porgy“ og „My Baby Just Cares for Me“. Alls gaf hún út yfir 40 breiðskífur til 1974. Hún blandaði saman klassískri tónlist, sérstaklega Johann Sebastian Bach, við gospeltónlist og popp, með mjúkum og tjáningarríkum djasssöng í auðþekkjanlegri kontraaltrödd.[6][7] Meðal annarra þekktra laga sem hún flutti eru „Don't Let Me Be Misunderstood“, „Wild Is the Wind“, „Ne me quitte pas“ og „Sinnerman“.

Simone var virkur þátttakandi í mannréttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum á 7. og 8. áratugnum og bæði talaði og söng á mótmælaviðburðum eins og í göngunum frá Selma til Montgomery árið 1965. Líkt og nágranni hennar, Malcolm X, var hún á þeirri skoðun að vopnuð bylting væri nauðsynleg, fremur en hægfara breytingar. Hún glímdi við geðhvarfasýki og var þekkt fyrir skapofsaköst sín. Árið 2010 setti tímaritið Rolling Stone hana í 29. sæti yfir bestu söngvara allra tíma.[8]

Tilvísanir

  1. Simone, Nina; Stephen Cleary (2003) [1992]. I Put a Spell on You. Introduction by Dave Marsh (2nd. útgáfa). New York: Da Capo Press. bls. 1–62. ISBN 0-306-80525-1.
  2. „Encyclopedia of Jazz Musicians – Nina Simone (Eunice Kathleen Waymon)“. Jazz.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. mars 2016. Sótt 28. október 2013.
  3. Liz Garbus, 2015 documentary film, What Happened, Miss Simone?
  4. „The Nina Simone Foundation“. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. júní 2008. Sótt 7. desember 2006.
  5. Pierpont, Claudia Roth (6. ágúst 2014). „A Raised Voice: How Nina Simone turned the movement into music“. The New Yorker. Afrit af uppruna á 6. ágúst 2014. Sótt 6. ágúst 2014.
  6. Simone, Nina; Stephen Cleary (2003) [1992]. I Put a Spell on You. Introduction by Dave Marsh (2nd. útgáfa). New York: Da Capo Press. bls. 91. ISBN 0-306-80525-1..
  7. Simone, Nina; Stephen Cleary (2003) [1992]. I Put a Spell on You. Introduction by Dave Marsh (2nd. útgáfa). New York: Da Capo Press. bls. 17–19. ISBN 0-306-80525-1.
  8. Anon. (2. desember 2010). „100 Greatest Singers of All Time: Nina Simone“. Rolling Stone. Afrit af upprunalegu geymt þann maí 16, 2017. Sótt 18. mars 2017.

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!