Nassá (enska: Nassau) er höfuðborg og helsta viðskiptamiðstöð Bahamaeyja. Árið 2016 voru íbúar hennar taldir 274.400 eða um 70% íbúa Bahamaeyja. Lynden Pindling-alþjóðaflugvöllurinn, aðalflugvöllur eyjanna, liggur um það bil 16 km vestan miðborgar Nassá. Þaðan er m.a. flogið til Kanada, Karíbahafseyja, Bandaríkjanna og Bretlands. Nassá liggur á eyjunni New Providence. Þinghús Bahamaeyja hefur aðsetur í borginni ásamt ráðuneytum. Fyrr á tímum var Nassá þekkt sem athvarf sjóræningja. Borgin er nefnd til heiðurs Vilhjálmi 3. Englandskonungi, sem var í Nassáættinni, evrópskri aðalsætt sem dregur nafn sitt af borginni Nassá í Þýskalandi.
Nassá tók mikinn vaxtarkipp á seinni hluta 18. aldar er þúsundir trúfastra stuðningsmanna bresku krúnunnar flýðu þangað í kjölfar Bandaríska frelsisstríðsins, ásamt þrælum sínum. Margir þeirra settust að í Nassá og urðu fljótt fjölmennari en fyrstu íbúarnir.
Eftir því sem íbúum Nassá fjölgaði stækkaði borgarlandið og í dag nær borgin yfir mestan hluta eyjunnar New Providence og næstu eyju, Paradise Island. Fyrir seinni heimsstyrjöldina voru eyjarnar þó að mestu leyti óbyggt kjarrlendi. Innflytjendur frá Bandaríkjunum sem flúðu Bandaríska frelsisstríðið stofnuðu nokkrar plantekrur og fluttu inn þræla til að vinna á þeim.
Þegar Bretar afnámu viðskipti með þræla árið 1807 fluttu þeir þúsundir frelsaðra Afríkumanna til New Providence og annarra eyja. Einnig máttu frelsaðir bandarískir þrælar setjast að á eyjunni. Í upphafi bjuggu flestir Afríkumennnirnir í suðurhverfum Nassá en hvítir Evrópubúar á norðurströndum eyjunnar.