Meginlandsréttur er í grunninn sóttur í lagabálk Býsansríkis, Corpus Iuris Civilis en hefur orðið fyrir áhrifum frá lögbók Napóleons, germönskum venjurétti, kirkjurétti og ýmsum staðbundnum réttarvenjum. Auk þess hafa seinni tíma stefnur og straumar haft áhrif, t.d. náttúruréttur og vildarréttur.[3] Bent hefur verið á að vafasamt sé að líta á meginlandsrétt sem eitt réttarkerfi, heldur sé hægt að skipta honum í þrjá meginstrauma sem hafa hver sín sérkenni, þ.e. Napóleonsrétt, þýskan rétt og norrænan rétt (sem m.a. gildir á Íslandi).[1] Munurinn þarna á milli felst t.d. í því hvernig löggjöf er sett fram og hvernig dómstólar starfa.