María Tudor (18. mars1496 – 25. júní1533) var yngri systir Hinriks 8. Englandskonungs: Hún giftist Loðvík 12. Frakkakonungi og var drottning Frakklands skamma hríð. Síðar giftist hún hertoganum af Suffolk.
María var dóttir Hinriks 7. Englandskonungs og Elísabetar af York. Hún var sögð ein fallegasta prinsessa Evrópu og er svo lýst að hún hafi verið há, grönn, fölleit og græneyg, með afar sítt og fallegt rauðgullið hár. Ellefu ára gömul var hún trúlofuð Karli af Kastilíu, síðar Karli 5. keisara en þeirri trúlofun var síðar slitið þegar heppilegra þótti að gera annars konar pólitískt bandalag og 9. október1514, þegar María var 18 ára, var hún gift Loðvík 12. Frakkakonungi, sem var 52 ára, og var hún þriðja kona hans. Loðvík átti engan son á lífi og reið á að afla sér erfingja en hann dó á nýársdag 1515, innan við þremur mánuðum eftir brúðkaupið, og var sagt að ofreynsla í hjónasænginni hefði orðið honum að aldurtila. María reyndist ekki vera þunguð og Frans 1., frændi Loðvíks, tók við konungdæminu.
Hinrik 8. sendi vin sinn, Charles Brandon (um 1484-1545) hertoga af Suffolk, þegar til Frakklands til að sækja Maríu. Hann mun hafa vitað að systir hans hafði áður rennt hýru auga til hertogans en tók af honum loforð um að biðja Maríu ekki. Þrátt fyrir það gengu þau í leynilegt hjónaband í Frakklandi 3. mars 1515. Þar með varð Brandon í raun landráðamaður því hann hafði gifst konungborinni konu án samþykkis konungsins og þegar Hinrik komst á snoðir um hjónabandið varð hann ævareiður. Hann hlífði Brandon þó við lífláti eða fangelsun en dæmdi þau í háar sektir. Þau giftust opinberlega 13. maí 1515 í Englandi. Þrátt fyrir þetta var María yfirleitt kölluð „franska drottningin“ við ensku hirðina en ekki hertogaynjan af Suffolk.
María var mjög andsnúin áformum bróður síns um að láta ógilda hjúskap hans og Katrínar af Aragóníu til að giftast Önnu Boleyn. Anna hafði á sínum tíma verið í fylgdarliði Maríu þegar hún var send til Frakklands til að giftast og hafði þeim jafnan komið illa saman. Þetta spillti sambandi þeirra systkinanna en þau höfðu verið mjög samrýmd í bernsku og Hinrik lét elstu dóttur sína heita í höfuðið á systur sinni.
Þau hjónin áttu tvo syni sem dóu ungir og tvær dætur, Frances, sem giftist Henry Gray markgreifa af Dorset og var móðir lafði Jane Grey, og Eleanor, sem giftist Henry Clifford jarli af Cumberland; afkomendur hennar hefðu erft ensku krúnuna eftir lát Elísabetar 1. ef farið hefði verið eftir þeirri erfðaröð sem Hinrik 8. ákvað í erfðaskrá sinni. Þegar María dó 25. júní 1533 var yngri sonur þeirra enn á lífi, um tíu ára gamall og trúlofaður Catherine Willoughby, þrettán ára stúlku sem hertoginn hafði forræði yfir eftir lát föður hennar. En þegar hann varð ekkjumaður ákvað hann að giftast sjálfur stúlkunni, sem var vellauðug, og gengu þau í hjónanband aðeins þremur mánuðum síðar. Sonurinn dó næsta ár.