Manuel Rosas Sánchez (f. 29. febrúar 1912 - d. 20. febrúar 1989) var mexíkóskur knattspyrnumaður sem keppti fyrir hönd þjóðar sinnar á fyrstu heimsmeistarakeppninni árið 1930.
Ævi og ferill
Manuel Rosas fæddist í Mexíkóborg, einn tíu bræðra. Tveir bræðra hans, Juan og Felipe, voru meðal liðsfélaga hans hjá CF Atlante og sá síðarnefndi lék við hlið hans í mexíkóska landsliðinu. Bræðurnir héldu saman á HM í Úrúgvæ þar sem Manuel setti ýmis met. Í 3:0 tapi gegn Síle skoraði hann fyrsta sjálfsmarkið í HM-sögunni. Í lokaleik Mexíkó í riðlinum varð hann fyrstur allra til að skora úr vítaspyrnu og bætti svo öðru marki við í 6:3 tapi gegn Argentínu. Þar með varð hann yngstur til að skora á HM og hélt því meti þar til Pelé kom til sögunnar á HM 1958. Rosas var jafnframt eini Mexíkóinn til að skora meira en eitt mark í HM-leik til ársins 1970.
Heimildir