Labrador er landsvæði á norðausturströnd Kanada og meginlandshluti kanadíska héraðsins Nýfundnaland og Labrador. Labrador er 71% af landsvæði héraðsins, en aðeins 6% íbúa búa þar. Labrador nær yfir austurhluta Labradorskaga. Norðaustan við strönd Labrador er Labradorhaf, en Grænland liggur norðan við það. Að sunnan skilur Belle Isle-sund milli Labrador og Nýfundnalands. Labrador og Nunavut mætast á Killiniq-eyju í Gray-sundi milli Labradorhafs og Ungava-flóa. Annars liggur Labrador að héraðinu Quebec í vestri og suðri.
Meðal frumbyggja Labrador eru Inúítar, Métisar og Innúar.
Landsvæðið heitir eftir Joao Fernandes Lavrador (1453 - 1505) sem skoðaði þetta svæði 1498.