Kristinn Ágúst Friðfinnsson


Kristinn Ágúst Friðfinnsson (f. 27. ágúst 1953 í Reykjavík) er pastor emeritus, ráðgjafi, fyrirlesari og sáttamiðlari.

Uppruni, fjölskylda og menntun

Foreldrar Kristins voru hjónin Ósk Sophusdóttir (1930 - 2022) og Friðfinnur Kristinsson (1926 - 1982).[1]

Kristinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1975, nam einsöng við Tónlistarskólann í Reykjavíkur 1975 - 1978 og lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1981. Lokaritgerð hans fjallaði um félagslega siðfræði. Hann annaðist um tíma á námsárunum aðstoðað í Hveragerðis- og Selfossprestaköllum. Kristinn stundaði framhaldsnám í sifjarétti, trúarlífssálarfræði, klínískri sálgæslufræði, sálgreiningu og samtalstækni og lauk meistaranámi (MA) í sáttamiðlunarfræðum og átakastjórnun frá lagadeild Kaupmannahafnarháskóla. Hann stundar nú nám í listfræði við H.Í. og ítölsku.

Helstu störf

Kristinn kenndi alls fjögur ár siðfræði við Þroskaþjálfaskóla Íslands en síðar tungumál á Selfossi, auk þess að halda námskeið, flytja fyrirlestra og leiðbeina við Þingborgarskóla. Hann fékkst við fréttaritun og dagskrárgerð fyrir Ríkisútvarpið 1978-1984 en síðar hjá Útvarpi Suðurlands. Hann var sóknarprestur í Staðarprestakalli í Súgandafirði 1981-1984, framkvæmdastjóri Skálholtsútgáfunnar 1984 - 1985 og vann við tryggingaráðgjöf 1986-1988. Hann gegndi í forföllum sem sóknarprestur í Seljaprestakalli í Reykjavík 1988, í Dómkirkjunni í Reykjavík 1989 og á Selfossi 1994. Var aðstoðarprestur dómprófastsins í Reykjavík 1989-1991 og hefur annast helgihald í safnkirkju Árbæjarsafns í Reykjavík frá 1989, sóknarprestur í Hraungerðisprestakalli í Árnessýslu frá 1991 og þjónaði einnig Laugardælum og Villingaholti. 2009 bættist Selfosssókn við prestakall hans, sem þá fékk aftur nafnið Selfossprestakall. Kristinn var trúnaðarmaður fatlaðra á Suðurlandi frá 1993-2011. Hann hefur nokkrum sinnum verið settur meðdómandi í héraði í sifjaréttarmálum. Frá október 2014 hefur hann sinnt sálgæslu og sáttamiðlun á vegum Biskupsstofu. Hann hefur um árabil haldið regluleg námskeið og fyrirlestra fyrir ríkisstofnanir, félagasamtök og fyrirtæki um átakastjórnun, sáttamiðlun, samtalstækni, sjálfsstyrkingu, leiðir til að bæta andrúmsloft á vinnustöðum og að takast á við erfiða einstaklinga.

Félags- og trúnaðarstörf

Kristinn var forseti Nemendafélags MH, sat í Stúdentaráði og í stjórn þess, var fulltrúi stúdenta í háskólaráði, annaðist samskipti milli nemenda og Happdrættis H.Í., sat í hönnunarnefnd Odda, kennslu- og rannsóknarnefnd háskólaráðs, svo fátt eitt sé nefnt. Hann var allmörg ár stjórnarmaður í Æskulýðssambandi Íslands og varaformaður í Æskulýðsráði Reykjavíkur, formaður í nefnd um rekstur æskulýðsmiðstöðvarinnar Bústaða, fulltrúi á ráðstefnum og fundum um námsmanna- og æskulýðsmál, m.a. í Evrópuráði æskunnar í Hollandi 1979 og höfuðborgarráðstefna Norðurlanda um æskulýðsmál 1980 og fulltrúi á Evrópuþingi presta í Ungverjalandi 1994. Sat í æskulýðsnefnd Þjóðkirkjunnar 1981-1984. Ráðherraskipaður 1983 í undirbúningsnefnd Alþjóðaárs æskunnar 1985. Í stjórn Prestafélags Íslands 1992-1998, varaformaður um tíma, en lengst af kjarafulltrúi. Beitti sér fyrir endurskoðun á siðareglum presta. Skipaður 1995 í nefnd á vegum dóms- og kirkjumálaráðherra um aukatekjur presta. Formaður Sunddeildar Ungmennafélags Selfoss og í aðalstjórn UMFS frá 1999. Tók 1998 við umhverfisverðlaunum Árborgar fyrir hönd Sunddeildarinnar, en sjálfur hafði Kristinn tekið þátt í götuhreinsun á vegum hennar.[2] Sat einnig í mörgum öðrum nefndum og ráðum hjá hinu opinbera og félagasamtökum.

Kristinn hefur verið félagi í Hinu íslenska töframannagildi um nokkurra ára skeið og var á aðalfundi þess, í janúar 2021, kjörinn gjaldkeri í stjórn gildisins.

Leiklistarferill og ritstörf

Kristinn hefur komið fram í að minnsta kosti 22 kvikmyndum. Hann lék m.a. í Hvítum mávum (1985), ferjumanninn í Börnum náttúrunnar (1991), læriföður í Myrkrahöðingjanum (2000), prestinn í 101 Reykjavík (2000), prest í myndinni Mýrin (2006), stuttmynd byggðri á þjóðsögu um niðurkvaðningu draugs í Villingaholtskirkjugarði (2004), í Bjólfskviðu (2006), Den brysomme mannen (2006), Reykjavik Whale Watching Massacre (2009), Hótel jörð (2009), Óróa (2010), Kurteisu fólki (2011), Borgríki (2011), Rétti, framhaldsþættir í sjónvarpi (2012) og Hreinu hjarta, heimildarmynd (2012)~.

Kristinn hefur skrifað fjölda greina í blöð og tímarit, meðal annars í Kirkjuritið og Þroskahjálp. Hann þýddi tvær víðlesnar bækur eftir Norman Vincent Peale: Fjársjóður jólanna (1993) og Máttur bænarinnar (1994, 2000). Hann var ritstjóri Orðsins 12. - 13. árg. 1977 - 1979, ritstýrði og sá um útgáfu á Fréttabréfi Húseigendafélagsins, sat í ritnefnd Kirkjuritsins og hefur ritað örsögur (óbirtar) um nokkurra ára skeið.

Tilvísanir

  1. Íslendingaþættir Tímans 7. júlí 1982. Skoðað 8. október 2010.
  2. Frétt á vef Sunddeildar UMF Selfoss 29. apríl 2008. Skoðað 8. október 2010.

Ítarefni

Internet Movie Database, The: Kristinn Ágúst Friðfinnsson. Skoðað 8. október 2010.

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!