Kodo le tyran (íslenska: Einræðisherrann Kodo) er 28. Svals og Vals-bókin og sú áttunda eftir Fournier. Hún var fyrri hlutinn í tveggja binda verki, en seinni hlutinn nefndist Des haricots partout. Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval árið 1978 og kom út á bókarformi árið 1979. Bókin hefur enn ekki verið gefin út á íslensku.
Söguþráður
Sagan hefst þar sem Svalur og Valur eru staddir í Burma með það að markmiði að heimsækja smáríkið Catung, sem er harðlæst og lýtur herforingjastjórn. Með aðstoð drykkfellds flugmanns sleppa þeir inn í landið en Valur fellur til jarðar og týnist í frumskóginum. Þar rambar hann fram á lífsleiðan útsendara alþjóðlegra glæpasamtaka sem sér herforingjastjórninni fyrir vopnum í skiptum fyrir eiturlyf. Útsendarinn, sem er nauðalíkur Val, þvingar hann til að skipta um hlutverk.
Valur heldur til höfuðborgarinnar og kynnist starfsháttum herforingjastjórnarinnar sem lýtur stjórn Kodos hershöfðingja. Hann skipar honum að koma á ýmsum úrbótum, s.s. afnámi dauðaresingar. Svalur kemst á sama tíma í kynni við fulltrúa andspyrnuhreyfingarinnar í landinu sem stefnir á að steypa stjórnvöldum.
Andspyrnuhreyfingin fær fregnir af því að fulltrúi glæpasamtakanna hyggist fara í könnunarferð á landsbyggðinni og undirbýr að ráða hann af dögum með því að sprengja upp brú sem leið hans liggur um. Fulltrúar stjórnarinnar hyggjast gera slíkt hið sama og kenna andspyrnunni um, til að losna við Val. Á síðustu stundu áttar Svalur sig á því Valur er í raun fulltrúi mafíunnar. En verður það of seint?
Fróðleiksmolar
- Í bókinni verður skjaldbaka ástfangin af íkornanum Pésa.
- Fournier hafði upphaflega hugsað bókina sem hluta af stórum sagnabálki með allt að sex bókum, þar sem alþjóðlegu glæpasamtökin hefðu komið meira við sögu. Vegna ágreinings við útgefandann Dupuis, ákvað hann hins vegar að halda sig við styttri sögu í tveimur bindum.