Ketill Jónsson Melstað (17. maí 1765 á Íslandi – 26. mars 1811 á Anholt) var danskur lögfræðingur og herforingi af íslenskum ættum.
Ketill var sonur Jóns Ketilssonar bónda á Íslandi. Hann varð 1784 stúdent frá Slagelse og lauk árið 1797 herskólanámi sem kapteinn og árið 1798 lögfræðiprófi. Ketill var fulltrúi og stjórnandi í herliði Dana í nýlendu þeirra Sankt Thomas á Jómfrúaeyjum. Hann kom aftur til Danmerkur eftir að nýlendan hafði fallið í hendur Breta. Árið 1808 varð hann major í danska hernum og yfirmaður í jósku stórskotaliðssveitanna. Hann skipulagði ásamt öðrum árás á enska hersveit sem hafði tekið yfir eyjuna Anholt. Þetta átti að vera leynilegt skyndiáhlaup en undirbúningur drógst á langinn og því láku upplýsingar um fyrirhugaða árás til óvinahersins á eyjunni. Þann 23. mars 1811 lagði herlið undir yfirstjórn Falsen herforinga af stað frá Gerildbugt með tólf báta með fallbyssum og 680 manns undir stjórn herforingjanna Melstaðs og Pryds. Árásin misheppnaðist algjörlega og féllu Melstað og Pryds og 300 manns særðust og voru margir teknir til fanga.
Í íslenzkum sagnablöðum frá 1816 er þessi lýsing á árás sjóorustunni við Anholt:
"Skömmu eftir upphaf stríðsins náðu Bretar þeirri litlu ey Helgalandi (Helgoland) tilheyrandi Dönum, fyrir utan Holtsetaland, og einnig 1809 eyjunni Anholt í Jótlandshafi (nú Kattegat), sem helst er nafnkend vegna hættulegra grynninga og miklis turnvita er kyndur er þar á nóttum sjófarendum til viðvörunar. 1811 reyndu Danir til að ná þessari eyju aftur. Frek 1000 manns réru frá Jótlandi þann 26 mars á 12 bátum og lentu við eyjunna næsta dag. Landi vor Major Ketill Jónsson Melsteð (er áður hafði lengi verið stríðsmanna höfuðsmaður í Vestindíum) hafði æft yfirráð þessa liðs. Með mikilli hreysti réðist hann á rammbyggð virki Breta, og veitti þeim tvisvar hvað eftir annað harða árás, en mikil vörn var fyrir og atgangan ófær. Loks féll Melsteð sjálfur fyrir skotum óvinanna með besta orðstír. Sá sem næstur honum var í yfirráðum liðsins, höfuðsmaðurinn (Kapteinn) Prydz missti báða fæturnar fyrir fallstykkiskúlu, var handtekinn og dó síðar af sárum í fangahaldi. Yfirboðari sjófólksins í leiðangri þessum lautenant Holstein var einnig skotinn til bana. Í þessari svipan komu nokkur ensk stríðsskip úr hafi, og urðu Danir því að hörfa tilbaka, eftir að bæði þeir og Bretar höfðu í atgaungu þessari hlotið mikið manntjón. 300 Dana voru ofurliði bornir og teknir höndum, en hinir komust á skip og síðan heim aftur til Jótlands. Enskir lofuðu mjög drengskap Melsteðs og hans undirmanna; Danakóngur prísaði hann einnig og gaf ei einungis ekkju hans, heldur og hans eptirlifandi föður á Íslandi, Jóni Ketilssyni sérlega árlega náðargjöf."[1]
Heimild
Fyrirmynd greinarinnar var „Ketil Melstedt“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. mars 2018.
- Tilvísanir
- ↑ Íslenzk sagnablöð, 1. deild (01.01.1816),Bls. 27-28