John Brown |
---|
John Brown um 1846-1847. |
Fæddur | 9. maí 1800
|
---|
Dáinn | 2. desember 1859 (59 ára)
|
---|
Dánarorsök | Hengdur |
---|
Maki | Dianthe Lusk (g. 1820, d. 1832); Mary Ann Day (g. 1833) |
---|
Börn | 20 |
---|
|
|
John Brown (9. maí 1800 – 2. desember 1859) var bandarískur aðgerðasinni sem trúði á og hvatti til vopnaðra uppreisna til að berjast gegn þrælahaldi í Bandaríkjunum. Hann vakti athygli þjóðarinnar þegar hann fór fyrir hóp sjálfboðaliða í átökum við stuðningsmenn þrælahalds í Kansas, sem þá hafði nýlega orðið bandarískt fylki, árið 1856. Brown var ósáttur við friðsamlega mótmælahreyfingu andstæðinga þrælahaldsins og sagði um þá:
„Þessir menn eru ekkert nema orðin tóm. Við þurfum að láta verkin tala – verkin!“
Aðferðir Browns í baráttu hans gegn þrælahaldi eru enn umdeildar í dag. Stundum er hans minnst sem hetju og hugsjónamanns en stundum sem brjálæðings og hryðjuverkamanns.[1] Sagnfræðingurinn James Loewen kannaði kennslubækur um Bandaríkjasögu og komst að þeirri niðurstöðu að til ársins 1890 hefði jafnan verið litið svo á að Brown hefði verið við fulla geðheilsu en frá 1890 til 1970 hafi hann verið útmálaður sem brjálæðingur.[2]
Æviágrip
John Brown fæddist um aldamótin 1800. Brown átti erfitt með að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Hann missti fyrri konu sína, Dianthe Lusk, eftir að hafa eignast með henni sjö börn en kvæntist stuttu síðar aftur, sextán ára stúlku að nafni Mary Ann Day. Þau Mary eignuðust 17 börn en mörg þeirra komust aldrei á legg. Brown ferðaðist með fjölskyldu sinni frá Ohio til Pennsylvaníu og þaðan til Massachusetts og til New York og gegndi ýmsum störfum.[3]
Brown var mjög heitttrúaður og varð með trúnni mjög andsnúinn þrælahaldi, sem hann taldi syndsamlegt. Brown hafði staðið í margvíslegu fjármálabraski og hafði lýst sig gjaldþrota nokkrum sinnum þegar hann flutti til Osawatomie í Kansas árið 1855. Kansas var á þessum tíma ekki enn orðið fylki en verið var að undirbúa löggjöf þess efnis og því var flutningur þangað mjög ör á þessum tíma og miklar deilur um hvort þrælahald skyldi leyft þar eða ekki. Uppþot og blóðug átök höfðu brotist út í Kansas á milli andstæðinga og stuðningsmanna þrælahalds og á þessu átakatímabili gerðu stuðningsmenn þrælahalds árás á bæinn Lawrence og brenndu þar mörg hús til ösku.[3] Brown taldi rétt að gjalda líku líkt og grípa til vopna gegn þrælaeigendum og stuðningsmönnum þeirra.
Í maí árið 1856 drápu Brown og stuðningsmenn hans fimm stuðningsmenn þrælahalds í Pottawatomie-fjöldamorðunum svokölluðu. Brown og stuðningsmenn hans áttu síðar eftir að há bardaga gegn þrælahaldssinnum við Black Jack þann 2. júní og Osawatomie þann 30. ágúst. Í orrustunni við Osawatomie féll einn af sonum Browns.[3]
Árið 1859 gerðu Brown og stuðningsmenn hans árás á vopnabúr alríkisins í Harpers Ferry í Virginíu og ætluðu þar að stofna vopnaða frelsishreyfingu meðal þrælanna sem bjuggu á svæðinu. Brown hertók vopnahirsluna en í átökunum létust sjö og rúmlega tíu særðust. Brown ætlaði sér að vopna þræla með byssum úr vopnabúrinu en árásin mistókst. Innan 36 klukkustunda höfðu flestir stuðningsmenn Brown flúið eða verið drepnir í gagnárás bænda úr nágrenninu og hermanna undir stjórn Roberts E. Lee. Brown var handtekinn og ákærður fyrir landráð gegn Virginíu, sjöfalt morð og fyrir að reyna að æsa til þrælauppreisnar. Brown var sakfelldur fyrir öll ákæruatriðin og síðan hengdur.
Sagnfræðingum kemur saman um að árásin á Harpers Ferry hafi ýtt undir spennu sem leiddi ári síðar til útgöngu suðurríkjanna úr bandaríska alríkinu og til bandarísku borgarastyrjaldarinnar. Suðurríkjamenn óttuðust að árás Browns væri aðeins sú fyrsta af mörgum tilraunum norðurríkjanna til að blása til þrælauppreisnar. Repúblikanar reyndu að létta á spennunni og sannfæra suðurríkjamenn um að þeir hygðust ekki gera út af við þrælahald þar sem það tíðkaðist þegar. Í borgarastyrjöldinni varð söngurinn „Lík Johns Brown“ (John Brown's Body) vinsæll meðal herdeilda sambandssinnanna og farið var að líta á Brown sem píslarvott.[3]
Tilvísanir
- ↑ Ken Chowder. "The Father of American Terrorism". American Heritage. February/March 2000.
- ↑ James Loewen, Lies My Teacher Told Me (New York: The New Press1995, 2007) pp. 173-203
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 „John Brown: Þjóðsaga og veruleiki“. Sunnudagsblaðið. 4. apríl 1965. Sótt 9. júní 2018.