Jesús

Jesús
FæddurUm 4 f.Kr.
DáinnUm 30 eða 33 e.Kr. (33–36 ára)
TrúGyðingdómur
Kristur gefur blessun sína eftir Hans Memling.

Jesús (líka kallaður Jesús Kristur eða Jesús frá Nasaret; fæddur í kringum 4 f.Kr., dáinn um 30 eða 33 e.Kr.) var predikari og trúarleiðtogi sem var uppi á fyrstu öldinni. Hann er mikilvægasta persónan í kristni og er í hugum kristinna Guð í mannsmynd og sá messías (Kristur) sem gamla testamentið spáði fyrir um.

Jesús fæddist í Júdeu (þar sem nú er Ísrael), sem þá heyrði undir Rómverska keisaradæmið. Flestir sagnfræðingar eru sammála um að Jesús hafi raunverulega verið til, þó ekki sé samhljómur um hversu áreiðanlega honum sé lýst í ritningunni. Jesús bjó lengi í bænum Nasaret. Hann var gyðingur og talaði arameísku, mál sem er skylt hebresku. Jesús var skírður af Jóhannesi skírara og hóf að predika, hann var oft kallaður rabbíni. Hann ræddi trúarkenningar sínar við aðra gyðinga, notaðist oft við dæmisögur í kennslu sinni, og eignaðist fylgjendur. Hann var tekinn fastur af yfirvöldum gyðinga, afhentur rómverskum yfirvöldum, og krossfestur samkvæmt skipun frá Pontíusi Pílatusi nýlendustjóra. Fylgjendur hans trúðu því að Jesús hefði risið upp frá dauðum og frá þeim varð kristni til.

Samkvæmt kenningum kristninnar er Jesús sonur Guðs og fæddur af Maríu mey. Hann á að hafa gert ýmis kraftaverk, dáið til að bæta fyrir syndir mannsins, og risið upp frá dauðum. Þá hafi hann farið til himnaríkis og muni þaðan snúa aftur. Flestir kristnir menn trúa því að Jesús hafi verið messías (hinn smurði), sonur Guðs og Guð sjálfur, og sé hluti af hinni heilögu þrenningu. Haldið er upp á fæðingu Jesú hvert ár þann 25. desember á jólunum. Krossfestingarinnar er minnst á föstudeginum langa og endurrisu hans frá dauðum á páskunum.

Jesú bregður líka fyrir í öðrum trúarbrögðum. Í íslam er hann nefndur Isa og er þar spámaður og messías. Múslimar trúa því að Jesús hafi verið fæddur af hreinni mey, en ekki að hann hafi verið sonur Guðs. Þeir trúa því ekki að Jesús hafi verið krossfestur heldur að hann hafi stigið upp til himins. Gyðingar trúa því ekki að Jesús hafi verið messías eða að hann hafi risið upp frá dauðum.

Nafn

Á tímum Jesú báru gyðingar venjulega aðeins eitt nafn, en stundum var bætt við það föðurnafni, eins og í „sonur (nafn föður)“ eða nafni heimabæjar viðkomandi.[1] Í Nýja testamentinu er Jesús þannig kallaður „Jesús frá Nasaret[2] Meðal nágranna Jesú í Nasaret er hann nefndur „smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar“.[3], „sonur smiðsins“,[4] eða „sonur Jósefs“.[5] Í Jóhannesarguðspjalli kallar lærisveinninn Filippus postuli hann „Jesús frá Nasaret, son Jósefs“.[6]

Íslenska nafnið Jesús er dregið af latneska nafninu Iesus, sem er umritun úr grísku Ἰησοῦς (Iēsoûs).[7] Nafnið er líklega dregið af hebreska og arameíska nafninu ישו (Yēšūaʿ, „Jesúa“) sem er styttri útgáfa af hebreska nafninu יהושע (Yəhōšūaʿ) sem er oftast skrifað „Jósúa“ á íslensku. Nafnið Jósúa merkir líklega „guð (Jave) bjargar“. Jósúa var líka nafn eftirmanns Móse[8] og nafn á æðstapresti í Hebresku biblíunni[9] sem báðir koma fyrir í grísku Sjötíumannaþýðingunni sem Iēsoûs.

Nafnið Jesúa virðist hafa verið í notkun í Júdeu um það leyti sem Jesús fæddist.[10] Í ritum Jósefosar sem skrifaði á koine grísku á 1. öld[11] kemur Jesús (þ.e. Ἰησοῦς) fyrir sem nafn á minnst 20 manns.[12]

Kristnir menn kalla Jesúm Krist, sem er titill en ekki nafn.[13] Höfundur Jóhannesarguðspjalls heldur því fram að Jesús hafi sjálfur notað þann titil í fyrirbæn sinni.[14] Orðið kemur úr grísku Χριστός (Khristos),[7][15] sem er þýðing á hebreska orðinu mashiakh (משיח), oftast skrifað „messías“, sem merkir „hinn smurði“. Það vísar til þess að í gyðingdómi á þeim tíma voru heilagir menn og trúargripir smurðir með heilagri olíu. Kristnir menn vísa til Jesú sem Krists því þeir trúa því að hann sé sá messías sem Gamla testamentið segir frá. Fylgjendur Jesú hafa verið kallaðir „kristnir“ frá því á 1. öld.[16]

Samkvæmt gamalli hefð beygist nafnið Jesús í íslensku eins og í latínu: Jesús (nf.), Jesúm (þf.), Jesú (þgf.), Jesú (ef.) (auk ávarpsfallsins Jesú).[17] Í Atómstöðinni nefnir ein persóna Halldórs Laxness Jesúm á íslensku og kallar „Jón Smyril í Brauðhúsum“ (bæjarheitið Betlehem merkir „brauðhús“ á hebresku). Laxness skrifaði einnig smásögu sem hét Jón í Brauðhúsum og vísaði þar til hins sama. Upphaflega kemur þó íslenskun á nafni hans frá Gísla Magnússyni latínuskólakennara og samtímamanni Fjölnismanna.

Helgir dómar

Líkklæðið frá Tórínó, Ítalíu, er þekktasti helgidómurinn sem er tengdur Jesú og einn af mest rannsökuðu forngripum mannkynssögunnar.

Eftir umsátrið um Jerúsalem árið 70 og eyðileggingu borgarinnar í kjölfarið má ætla að mjög fátt hafi varðveist frá Júdeu á 1. öld og engar beinar heimildir er að finna um sögu gyðingdóms frá síðari hluta 1. aldar og fram á 2. öld.[18][19] Margaret M. Mitchell skrifar að þótt Eusebius segi frá því (Kirkjusaga Eusebiusar III 5.3) að fyrsti kristni söfnuðurinn hafi flúið frá Jerúsalem til Pella rétt áður en borgin lokaðist, sé ljóst að engir gripir frá kirkjunni í Jerúsalem hafa varðveist til okkar daga.[20] Joe Nickell skrifar að rannsókn eftir rannsókn hafi sýnt fram á að ekki einn helgur dómur sem áreiðanlega tengist Jesús sé til.[21]

Í sögu kristninnar hafa samt sem áður margir helgir dómar komið fram sem sagðir eru tengjast Jesú. Kaþólski 16. aldar guðfræðingurinn Erasmus skrifaði háðslega um það hversu mörg hús væri hægt að reisa úr öllum viðnum sem sagður var vera úr krossinum helga.[22] Sérfræðingar deila um hvort Jesús hafi verið krossfestur með þremur eða fjórum nöglum, en minnst þrjátíu heilagir naglar eru dýrkaðir sem helgir dómar um alla Evrópu.[23]

Sumir helgidómar, eins og meintar leifar af þyrnikórónunni sem sett var á höfuð Jesú, fá heimsóknir nokkurra pílagríma árlega, meðan líkklæðið frá Tórínó er heimsótt af milljónum manna,[24] þar á meðal páfunum Jóhannesi Páli 2. og Benedikt 16.[25][26]

Tilvísanir

  1. Sanders, Ed P.; Pelikan, Jaroslav J. „Jesus Christ“. Encyclopædia Britannica. Afrit af uppruna á 3. maí 2015. Sótt 10. júní 2015.
  2. t.d., Markúsarguðspjall 10:47
  3. Markúsarguðspjall 6:3
  4. Matteusarguðspjall 13:55
  5. Lúkasarguðspjall 4:22
  6. Jóhannesarguðspjall 1:45
  7. 7,0 7,1 Maas, Anthony J. (1913). "Origin of the Name of Jesus Christ" . In Herbermann, Charles (ed.). Catholic Encyclopedia. New York: Robert Appleton Company.
  8. „Joshua 1:1“. Afrit af uppruna á 2. febrúar 2019. Sótt 1. febrúar 2019.
  9. „Ezra 3:2“. Afrit af uppruna á 2. febrúar 2019. Sótt 1. febrúar 2019.
  10. Hare, Douglas (2009). Matthew. Westminster John Knox Press. bls. 11. ISBN 978-0-664-23433-1.
  11. Rogers, Cleon (1999). Topical Josephus. Zondervan. bls. 12. ISBN 978-0-310-23017-5. Afrit af uppruna á 7. september 2015. Sótt 14. ágúst 2015.
  12. Eddy & Boyd 2007, bls. 129.
  13. „BibleHub: John 17:3“. Afrit af uppruna á 25. júní 2019. Sótt 27. júní 2019.
  14. Jóhannesarguðspjall 17:3
  15. Heil, John P. (2010). Philippians: Let Us Rejoice in Being Conformed to Christ. Society of Biblical Lit. bls. 66. ISBN 978-1-58983-482-8. Afrit af uppruna á 7. september 2015. Sótt 14. ágúst 2015.
  16. Mills & Bullard 1998, bls. 142.
  17. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls. „Ávarpsfall og beyging nafnsins Jesús“.
  18. Levine, Amy-Jill (2006). Levine, Amy-Jill; Allison, Dale C.; Crossan, John D. (ritstjórar). Introduction. bls. 24–25. ISBN 978-0-691-00992-6. Afrit af uppruna á 10. apríl 2014. Sótt 8. október 2020.
  19. Helmut Koester Introduction to the New Testament, Vol. 1: History, Culture, and Religion of the Hellenistic Age. Berlin: de Gruyter Press, 1995 p. 382
  20. Margaret M. Mitchell "The Cambridge History of Christianity, Volume 1: Origins to Constantine" Cambridge University Press 2006 p. 298
  21. Nickell, Joe (2007). Relics of the Christ. University Press of Kentucky. bls. 191. ISBN 978-0-8131-3731-5.
  22. Dillenberger, John (1999). Images and Relics : Theological Perceptions and Visual Images in Sixteenth-Century Europe: Theological Perceptions and Visual Images in Sixteenth-Century Europe. Oxford University Press. bls. 5. ISBN 978-0-19-976146-3.
  23. Thurston, Herbert (1913). „Holy Nails“. Í Herbermann, Charles (ritstjóri). Catholic Encyclopedia. Robert Appleton Company.
  24. Delaney, Sarah (24. maí 2010). „Shroud exposition closes with more than 2 million visits“. Catholic News Service. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. júní 2010.
  25. Wojtyła, Karol J. (24. maí 1998). „Pope John Paul II's address in Turin Cathedral“. Vatican Publishing House. Afrit af uppruna á 19. febrúar 2017. Sótt 18. febrúar 2017.
  26. Squires, Nick (3. maí 2010). „Pope Benedict says Shroud of Turin authentic burial robe of Jesus“. Christian Science Monitor. Afrit af uppruna á 1. apríl 2013. Sótt 19. júní 2013.

Tenglar

  Þessi trúarbragðagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!