Jean Bodin fæddist í Vestur-Frakklandi snemma á 16.öld og ólst upp á strangtrúuðu millistéttarheimili í borginniAngers. Bodin gekk snemma inn í franska trúarreglu innan kaþólsku kirkjunnar og hlaut hann góða menntun innan veggja klaustursins en lítið annað er vitað með vissu um æsku hans og unglingsár. Árið 1549 sleit hann sig úr trúarreglunni og hélt til Parísar þar sem sótti sér frekari menntun og lagði stund á heimspeki. Síðar hélt Bodin til Toulouse þar sem hann lærði lögfræði og þá sér í lagi samanburðarlögfræði. Í framhaldinu af því hóf hann að kenna við háskólann í Toulouse og vann einnig að þýðingum latneskra ljóða og handrita.
Þegar Bodin var komin á fertugsaldurinn starfaði hann sem lögfræðingur á þinginu í París og árið 1576 giftist hann eiginkonu sinni, Françoise Trouillart. Hann gekk í ýmis störf innan þingsins en mikil valdabarátta var í landinu og rígur milli flokka og trúarhópa og menn því nokkuð flokksbundnir og fólksfylgnir innan þingsins. Á fullorðinsárum gaf Bodin út veigamikil rit um ýmis málefni, til að mynda hagfræðirit og pólitísk heimspekirit.
Bodin var afkastamikill rithöfundur og skrifaði um sögu Frakklands,hagfræði, stjórnmál, heimspeki og í seinni tíð um djöfla og trúfræði. Sjálfur skrifaði hann á frönsku en hafa rit hans verið gefin út á fjölmörgum tungumálum síðan og hlotið góðan hljómgrunn. [2]
Framlag til hagfræðinnar
Framlag Bodin til hagfræðinnar má í stórum dráttum finna ritinu "Response to the Paradoxes of Malestroi". Bókin var fyrst gefin út árið 1568 og svo í annari útgáfu tíu árum síðar. Bókin byggir á greiningu Bodin á því hvað olli þeirri miklu verðhækkun sem stanslaust átti sér stað í Evrópu á þessum árum og nefndi hann fimm meginástæður í þessu samhengi. [3]
Stærsta ástæðan var aukið flæði góðmálma til Evrópu. Nýjar gull- og silfurnámur í Suður-Ameríku juku umfang góðmálma til muna í Frakklandi og nágrannalöndum þess og þar með lækkaði virði peninga og skyldinga sem olli mikilli þennslu í hagkerfinu. [4]
Með þessu komu sömuleiðis fyrst fram hugmyndir um að peningaframboð í umferð hefur hvað mest áhrif á verðlagningu og sveiflur í hagkerfinu og var Bodin því einn af upphafsmönnum peningamagnskenningarinnar, ásamt hagfræðingnum Martin de Azpilcueta og fleirum. Peningamagnskenningin (Quantity theory of money) byggir á því að verðlag vöru og þjónustu er í beinu hlutfalli við peningamagn í umferð og að kaupmáttur peninga ákvarðast af framboði þeirra. [5]
Bodin nefdi einnig að fólksfjölgun, aukin viðskipti, efnahagslegir fólksflutningar og umfangsmikil og hækkandi neysla væru ástæður verðhækkanna í Evrópu. Lagði hann þannig grunninn að fyrstu hugmyndum manna um verðbólgu og orsakavöldum hennar. [2]
Í framhaldi af peningamagnskenningu sinni dró Bodin þær ályktanir að peningar streyma í gagnstæða átt við sölu vöru og þjónustu og þar með leiddi útflutningur til hærra verðs, á meðan innflutningur lækkaði verð. Átti þetta síðar meir eftir að móta kjarnann í hugmyndum merkantilista í utanríkisviðskiptum, sem fólst í því að hagstæður viðskiptajöfnuður hækkaði verðlag. Merkantílismi eða kaupauðgisstefna grundvallast þannig á þeim sjónarmiðum að útflutningur eigi að vera umfram innflutning og að efnahagsleg velferð feli einnig í sér mikinn forða af gulli og silfri. Heildarauður viðskipta er óbreytilegur og gróði eins er því annars tap. Kenningin byggir sömuleiðis á því að það sé því hlutverk stjórnvalda að hvetja til útflutnings og draga úr innflutningi með viðeigandi aðgerðum eins og tollum og höftum. Sjálfur var Bodin hlynntur frjálsum viðskiptum og þeim verðstöðugleika sem þeim fylgdu, ásamt því að það stuðlaði að friði og samvinnu annarra þjóða. Eins vildi Bodin koma á alþjóðlegum samning um peningaviðmið í sama tilgangi. [6]
"The Six Bookes of a Commonweale"
Bodin varð hvað þekktastur þegar hann gaf út fræðiritið „The Six Bookes of a Commonweale“ árið 1576 þar sem hann fjallið um fullveldið, viðurkenningu æðsta valds sem og röð og reglu innan samfélagsins. Ritið fjallaði um mikilvægi þess að lúta æðra valdi sem væri alfarið í höndum ríkisins, hvort sem um væri að ræða konungsveldi, aðalsstétt eða lýðræði. Þessar hugmyndir Bodin breiddust hratt um Evrópu en á þessum árum geysuðu mikil trúar- og valdastríð í Frakklandi og kenningarnar þóttu því nokkuð framsæknar. Bodin hélt því fram að stríðin og deilurnar myndu heyra sögunni til ef að fullveldisprins Frakklands hefði einn öll völdin í hendi sér og mærði þannig konungsveldi og kosti þeirra .[7]